140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:41]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get að sjálfsögðu tekið undir að við þurfum að takmarka þær álögur sem eru settar á útgerðina. Það er alveg rétt hjá honum, þeir hlekkir sem á hana eru settir bitna á landsbyggðinni og þeirri starfsemi sem á þar við.

Við í Framsóknarflokknum höfum samt talað fyrir hóflegu veiðigjaldi. Við gerðum það, eins og ég kom inn á í ræðu minni, með því skilyrði að sá arður mundi renna til sveitarfélaganna og uppbyggingar á því svæði sem hann kæmi frá. Ég ímynda mér að það sé kannski stigsmunur frekar en eðlismunur á stefnu Framsóknarflokksins og stefnu Sjálfstæðisflokksins hvað þetta varðar. Ég hef svolítið saknað þess hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins að þeir gefi upp hvort þeir væru til í að hafa hóflegt veiðigjald og hvað það þyrfti að vera hátt. Þegar við framsóknarmenn komum fram með okkar tillögur gáfum við vissulega á okkur höggstað en ég held að það hafi verið rétt og ég tel að það hafi verið sanngjarnt. Ég efast ekki um að hinir ágætu þingmenn Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) sem hér eru í salnum muni gera grein fyrir afstöðu sinni í ræðum sínum.