140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Í sambandi við það sem hv. þingmenn enduðu á hér áðan er alveg skýrt að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur talað fyrir hóflegu veiðigjaldi og var sá flokkur sem kom því á. Síðan er, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson veit, dálítill munur á því sem við skilgreinum hóflegt og skilgreiningu vinstri manna.

Mig langar að byrja á að fara yfir hvað hafi í raun og veru gerst og hvað varð til þess að stefnubreyting varð hjá hæstv. ríkisstjórn gagnvart þeirri tekjuöflun sem áætluð er með veiðigjaldi eða veiðiskatti, landsbyggðarskattur er auðvitað réttara orð yfir það.

Í október 2011 var kynnt skýrsla um áætlun í ríkisfjármálum og gert ráð fyrir því að á árinu 2012 yrði áætlað veiðigjald aukið um 1,5 milljarða, síðan á árinu 2013 um 4,5 og sama gjaldið yrði út 2014 og 2015 og var áætlað að það yrði í kringum 9,3 milljarðar í heildina. Þetta voru áætlanirnar og með þeim komu skýringar í áætlun ríkisfjármála um að það ætti að skapa sátt meðal þjóðarinnar að fá eðlilega auðlindarentu eða veiðiskatt af auðlindinni.

Síðan gerist það, virðulegi forseti, að sérfræðingar ríkisstjórnarinnar fóru að útfæra hvernig bæri að taka á þessu og allt í einu var búið að hækka veiðigjaldið úr 9,3 milljörðum upp í 20 milljarða. Vinnubrögðin voru svo gáfuleg að þegar menn fóru að rýna í útreikningana varð niðurstaðan sú að skattheimtan hefði þýtt 50 milljarða en ekki 20 eins og áætlað var, svo gáfulegar voru forsendurnar sem hæstv. ríkisstjórn og sérfræðingar hennar gáfu sér í upphafi um hvernig vinna ætti verkið.

Nú er búið að vinna bót á því og menn hafa bakkað með þá vitleysu en það vekur auðvitað athygli og er ekki annað hægt en að koma aðeins inn á það að enginn hv. þingmaður í hvorugum stjórnarflokknum, enginn hefur að minnsta kosti gefið sig fram hingað til, skyldi hafa gert athugasemd við það að þessi frumvörp væru lögð fram án þess að áhrif þeirra á landsbyggðina og á einstaka sveitarfélög væru metin.

Ég er að bíða eftir hæstv. utanríkisráðherra sem kemur hingað annað slagið og þenur sig og kvartar yfir því að menn nenni ekki að mæta í vinnuna og standa hér en sést svo sem ekki mikið hér sjálfur, a.m.k. ekki þessa dagana, heldur kemur aðeins til að greiða atkvæði um lengd þingfundar og fer síðan heim. Hann hafði einmitt þau orð um frumvarpið, sem hann samþykkti að yrði lagt fram í ríkisstjórn sl. vor, að það væri bílslys eftir að menn voru búnir að greina það. Það hefði auðvitað orðið hörmulegt hefði það náð fram að ganga. Hann stóð hins vegar í þessum ræðustól og hvatti til þess að það yrði samþykkt og sagði það sérhagsmunagæslu og málþófstakta í stjórnarandstöðunni að vilja ekki hlýða hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórninni og samþykkja það frumvarp.

Þegar óháðir sérfræðingarnir, sem hv. atvinnuveganefnd fékk til að skoða málið, höfðu rýnt málið var niðurstaðan mjög skýr. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Það var mat höfunda að tilgangslaust væri að meta áhrif frumvarpsins í óbreyttri mynd. Ekkert fyrirtæki er líklegt til að standa undir þeim álögum.“

Fleiri orð þarf ekki um þessi vinnubrögð. En einhverra hluta vegna lærist hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnarmeirihlutanum aldrei að vinna þarf mál þannig að það sem haft er í hyggju sé framkvæmanlegt.

Það er mjög merkilegt hvernig hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutinn hefur komið fram gagnvart landsbyggðinni á þessu kjörtímabili, bæði hvernig vegið er að grunnheilbrigðisþjónustu og öðru, alls staðar er höggvið í sama knérunn.

Það er líka dálítið merkilegt, því að vinstri menn skilja ekki skatta og hvernig þeir virka, að þeir haldi að þeir geti bara hækkað skattprósentuna og þá komi meira inn í kassann. Þeir gera sér ekki grein fyrir þeim áhrifum sem það hefur á skattstofninn sjálfan að hækka skattprósentuna. Þetta kom fram í máli eins hv. þingmanns áðan um þær breytingar sem hafa orðið á virðisaukaskattinum og því hvað hann hefur dregist mikið saman.

Þegar hæstv. ríkisstjórn kynnti fjárfestingaráætlun sína og það hvernig ætti að fjárfesta hér fyrir 80 milljarða en ríkissjóður mundi leggja til 39 milljarða rak einn hv. þingmann á fjörur hennar. Taka átti hluta af veiðigjaldinu og hluta af sölu á eignarhluta í bönkunum til að fjármagna þessa fjárfestingaráætlun, sem er í raun og veru ekkert annað en kosningaloforð inn á næsta kjörtímabil hjá hæstv. ríkisstjórn til að halda einhverju fylgi því að fylgið er auðvitað hrunið af ríkisstjórnarflokkunum sem gefur augaleið. Á fjörur hæstv. ríkisstjórnar rak hv. þm. Guðmund Steingrímsson sem hefur stofnað Bjarta framtíð eða bjarta fortíð, ég veit ekki hvaða orð á að nota yfir flokkinn. Hann rak á fjörur ríkisstjórnarinnar sem stuðningsmaður svo að þetta gengi eftir, þó svo að hann kæmi úr Norðvesturkjördæmi og talaði á annan veg áður en hann var kjörinn á þing. En þannig eru vinnubrögðin, það er verið að selja hugmyndina að því hvernig eigi að fara að því að leggja vegi, ekki sé hægt að gera það nema leggja sérstakan skatt á landsbyggðina.

Það er athyglisvert að það skuli vera eiginlega alveg sama hvaða varnaðarorð eru höfð uppi, hvort sem þau koma frá óháðum sérfræðingum, sveitarfélögunum eða hverjum sem er, um þau áhrif sem þetta hefur á byggðirnar, það er ekkert hlustað, akkúrat ekki neitt. Það virkar að minnsta kosti þannig á mig miðað við hvernig viðbrögðin eru hjá hv. stjórnarliðum gagnvart þessu.

Ég velti fyrir mér hvort það geti verið að þeir hv. þingmenn sem treysta sér til að samþykkja þau frumvörp sem liggja fyrir, annars vegar veiðiskattinn og hins vegar það sem snýr að stjórn fiskveiða, sem eru auðvitað samtengd mál því að þau þurfa að afgreiðast sameiginlega til að menn átti sig á hvaða áhrif þau hafa, hugsi bara um eitt: Hvernig í ósköpunum getum við reynt að kaupa okkur aðeins meira fylgi? Hvað getum við selt til að fá aðeins meira fylgi? Og síðan komi bara í ljós hvaða áhrif þetta hefur í raun og veru á sjávarbyggðirnar þegar að því kemur.

Ég minni á að loksins þegar árar vel í sjávarútvegi, eftir mörg erfið ár þegar gengi krónunnar var mjög sterkt og uppbyggingin var á suðvesturhorninu, eftir allan tilflutning á fólki, niðurskurð í aflaheimildum á sama tíma og gengið var mjög sterkt og fyrirtækjum í sjávarútvegi gekk ekki vel, það gefur augaleið, þegar aðeins rofar til þá verður auðvitað að fara og soga allt sem hægt er af landsbyggðinni því að það virðist alltaf verða að moka meira og meira í báknið fyrir sunnan.

Síðan komu einstaka hv. þingmenn stjórnarliðsins — auðvitað mun fleiri sem gerðu það ekki — og voguðu sér að halda því fram þegar fiskiskipaflotinn lagði ekki úr höfn eftir sjómannadaginn að það væru kúgunaraðgerðir, verið væri að nota sjómenn og fiskverkafólk sem mannlega hlífiskildi. Menn létu stór orð falla hér og sögðu að í raun og veru væri þeim sem störfuðu í sjávarútvegi skítsama um starfsfólkið, eins og einn hv. þingmaður orðaði það. Þetta er náttúrlega ömurlegur málflutningur. Menn tala kannski af eigin reynslu, það gæti verið. Það gæti verið að þetta séu akkúrat þau vinnubrögð sem hafa fylgt þessari ríkisstjórn frá upphafi kjörtímabils, þ.e. að kúga fram niðurstöður. Við munum hvernig það var hér þegar verið var að afgreiða aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, þá var ótrúlegt að hlusta á skýringar hv. þingmanna sem voru algjörlega á móti því að ganga í Evrópusambandið en síðan þegar voru greidd atkvæði sögðu þeir já. Þá snerist málið um líf ríkisstjórnarinnar og hv. þm. Birgir Ármannsson lýsti því mjög vel hér í atkvæðaskýringu þegar hann sagði að nánast mætti heyra svipuhöggin og hringlið í hlekkjunum.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að hv. þingmenn stjórnarliðsins sem hyggjast samþykkja þetta frumvarp kynni sér mjög vel þær umsagnir og þau varnaðarorð sem koma víðs vegar að frá landsbyggðinni þar sem varað er við þeim afleiðingum sem samþykkt þessara frumvarpa getur haft í för með sér. Hv. þingmenn verða að fara að opna augun og hlusta eftir þeim rökum sem þar eru ellegar koma upp í ræðustól og fara yfir og andmæla þeim rökum sem þar koma fram í stað þess að slá umsagnir bara út af borðinu í einhverjum tveggja mínútna ræðum í störfum þingsins sem nýttar eru til að hreyta í þá sem geta ekki svarað fyrir sig. Þeir verða (Forseti hringir.) að fara efnislega yfir málið og þær athugasemdir sem þeir taka ekki mark á.