140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:57]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög athyglisvert að þessar umsagnir skyldu einmitt hafa komið frá Vesturbyggð, eða Patreksfirði og Bíldudal, einnig að það skyldi koma álit frá mönnum á Tálknafirði, sem þýðir í rauninni að suðurfirðir hafa meira og minna allir gert miklar athugasemdir við þessi áform. Svo er náttúrlega óupptalið það álit sem kom frá Bolungarvík, en það var líka neikvætt.

Þetta er kannski kjarni málsins. Það eru sjávarútvegsfyrirtæki hringinn í kringum landið. Ég rakti hér áðan hvernig þetta færi með Norðausturkjördæmi. Nú höfum við ekki rætt hvaða áhrif þetta hefur á öll þau sjávarútvegsfyrirtæki sem eru á Snæfellsnesi og í Norðvesturkjördæmi, eins og Skagafirði og víðar. Ég held að fólk átti sig ekki almennt á því að það eru sjávarútvegsfyrirtæki nánast í hverjum firði eða hverju byggðarlagi sem standa þar undir atvinnu, auðvitað ekki í öllum eins og gengur en þannig mun það aldrei verða aftur hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Mig langar að biðja hv. þingmann að koma aftur inn á það sem hann nefndi í sambandi við hversu ósmekklegt væri hjá ríkisstjórninni að lofa framkvæmdum fram í tímann. Það sem ríkissjóður þarfnast fyrst og fremst er agi. Aginn er mikilvægastur af öllu. Við erum að tapa hundruðum milljóna ef ekki milljörðum á hverju ári vegna þess að við höfum lítinn sem engan aga. Það er ótrúlegt að fylgjast með því þegar stofnanir eru strax í janúar farnar að biðja um að komast inn á fjárlög. Þessi ummæli, eins og hv. þingmaður kom inn á, bera því miður vott um að ríkisstjórnin ætli ekki að koma með þann aga (Forseti hringir.) sem er nauðsynlegur og samhljómur er um í fjárlaganefnd.