140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom mjög vel inn á það hvernig samspilið er milli auðlindagjaldsins eða veiðiskattsins, sem er hið rétta nafn á þessu, og byggðanna. Eitt af því sem menn hafa sagt er að það sé nú allt í lagi þó að fyrirtæki verði gjaldþrota, fiskurinn muni alltaf verða veiddur. Eitt þeirra byggðarlaga sem hann nefndi í þessu sambandi var Bolungarvík, sem ég þekki aðeins til í. Í umsögn frá Bolungarvíkurkaupstað er athygli vakin á því að í Bolungarvík hafi menn staðið frammi fyrir því að missa stóran hluta af aflaheimildum sínum um miðjan tíunda áratuginn. Síðan voru menn í því að byggja þetta upp. Það segir manni það að þegar illa fer tekur mjög langan tíma, þótt vel takist til, að byggja upp. Getur hv. þingmaður tekið undir með þeim þingmönnum sem hafa talað þannig að það sé ekkert áhyggjuefni í sjálfu sér þó að fyrirtækin fari unnvörpum á hausinn, það komi bara ný fyrirtæki í staðinn? Er hv. þingmaður ekki fremur þeirrar skoðunar að það sé alveg óljóst hvar fiskurinn verði veiddur eða hvar hann verði unninn og af þessu geti hlotist gríðarlega mikil byggðaröskun?