140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er rétt, ég kom inn á það í minni ræðu og las umsögn frá Bolungarvíkurkaupstað þar sem meðal annars var bent á að Bolungarvík hefur á undanförnum tíu árum þurft að kaupa megnið af sínum aflaheimildum aftur. Þessi umræða um að einhver annar muni veiða fiskinn — það er alveg hárrétt, það er algjörlega óljóst hvar fiskurinn verður veiddur. Ég hallast að því að mörgum hv. stjórnarliðum, einkum þeim sem búa hér á höfuðborgarsvæðinu sé nokk sama hvar fiskurinn sé veiddur. Þeir séu fyrst og fremst að hugsa um að það komi tekjur inn í ríkissjóð og þeim er alveg sama um Bolungarvík og fleiri staði. Ég hallast að því, því miður. Ég held að staðreyndin kunni jafnvel að vera sú að einhverjir þessara þingmanna séu fyrst og fremst að hugsa um að það komi tekjur inn í ríkissjóð en það séu ekki byggðasjónarmið eða velvilji gagnvart landsbyggðinni sem búi að baki því að leggja fram þau frumvörp (Forseti hringir.) sem við ræðum hér.