140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:59]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þm. Atli Gíslason höfum einmitt lagt fram breytingartillögu, sáttatillögu í málinu, um að 50% af teknum veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs skuli renna í ríkissjóð en 40% innheimtra tekna af veiðigjaldi renni til þess sveitarfélags eða landshlutasamtaka þar sem hlutaðeigandi útgerð á heimilisfesti og 10% renni síðan til rannsókna- og þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Þetta er sáttaleið fyrir þá sem vilja endilega taka veiðigjald en fyrir landsbyggðina því það er algjörlega ljóst að hér er um landsbyggðarskattlagningu að ræða og um það hefur ekkert verið deilt. Þar er ég sammála skoðun núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hann gerði grein fyrir í skrifum 1997 að veiðigjöldin væru hreinn landsbyggðarskattur.

Ég legg því áherslu á að þetta er millileið. Ég hef áhyggjur af þeirri gjá sem er að myndast á milli höfuðborgar og landsbyggðar og hefur meðal annars birst hjá mörgum þingmönnum (Forseti hringir.) í þessum umræðum. Það var athyglisvert að heyra að einn forsetaframbjóðandinn, (Forseti hringir.) Þóra Arnórsdóttir, hafði einmitt sömu áhyggjur af þeirri gjá sem væri að myndast á milli höfuðborgar og (Forseti hringir.) landsbyggðarinnar. Þetta er einn liður í þeirri umræðu.