140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason benti á og lýsti mjög langri þróun þar sem landsbyggðin hefur verið að þorna upp og mannfjöldi vex sífellt á höfuðborgarsvæðinu. Ísland er því hægt og rólega að breytast í borgríki. Ég hef sagt að þetta stafi af því að ríkið er stöðugt að vaxa og það vex í borginni. Það sem við horfum upp á í þessu frumvarpi og endurspeglast í öllum þeim umsögnum sem hv. þingmaður las upp úr frá sveitarfélögum úti á landi er einmitt það að gífurlega mikið aukin skattlagning mun þenja ríkið enn frekar út, ríkisvaldið mun vaxa enn frekar.

Mér finnst að menn eigi að horfa á það þannig, ríkið er að vaxa. Það getur vel verið að einhverju verði deilt aftur út með einhverjum atvinnutækifærum eða einhverju slíku en meginhlutinn mun sitja eftir í Reykjavík.