140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:06]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ekki sé á það bætandi í þeirri sundrungu sem virðist vera í þessu máli að við þingmenn förum að etja saman höfuðborginni og landsbyggðinni í ræðum okkar. Ég er þar af leiðandi ósammála hv. þingmanni.

Ég held að það skipti meira máli að við horfum til þess hve mikill samhljómur er í öllum þeim athugasemdum sem fram hafa komið við þetta frumvarp, hvaðan sem þær koma af landinu, og að vinnulag okkar sé frekar að horfa á heildarhagsmuni þjóðarinnar og hvernig sem við sem vinnum á Alþingi getum breytt þessu frumvarpi í þá veru að hagsmunaaðilar í útgerð, hvar á landinu sem þeir reka útgerð, ég bendi á að á höfuðborgarsvæðinu er eitt stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, HB Grandi, geti vel við unað því að frumvarpið (Forseti hringir.) hitti hvorki lítil, meðal- né (Forseti hringir.) stór fyrirtæki í sjávarútvegi illa fyrir. Hættum að etja saman höfuðborginni og (Forseti hringir.) landsbyggðinni.