140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í 44. gr. stjórnarskrárinnar er talað um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Þetta segir mér að umræðan skipti verulegu máli. Margir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa aldrei tekið þátt í umræðunni, hvorki um þetta mál né um það mál sem er enn í nefnd, og skipta þó þessi frumvörp verulegu máli og er mikið áhugaefni ríkisstjórnarinnar.

Til dæmis hefur hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir aldrei tekið til máls um þessi mál. Hæstv. fjármálaráðherra Oddný Harðardóttir hefur heldur aldrei tekið þátt í þessari umræðu og skipta þó þessi frumvörp ríkissjóð gífurlegu máli. Þá hefur hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir aldrei talað og hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson hefur heldur aldrei talað og ætti þetta að skipta hann máli því að sveitarfélögin eru eitthvað að kvarta undan þessu.

Ég vil að hæstv. forseti óski eftir því að þessir ráðherrar mæti allir og séu við umræðuna.