140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:28]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir skilning hans á því hversu illa þetta frumvarp muni leika landsbyggðina. Hann er þingmaður af höfuðborgarsvæðinu en hefur á mjög sanngjarnan hátt vakið athygli á því að þetta muni sliga margar byggðir úti á landi.

Mig langar að ræða við hv. þingmann þá markaðsstöðu sem Íslendingar hafa og hversu mikilvæg hún er fyrir okkur. Í mínum huga skiptir hún öllu máli og við höfum náð henni einfaldlega vegna þess að hér eru öflug sjávarútvegsfyrirtæki. Þeim hefur tekist á löngum tíma að ná markaðshlutdeild sem er í raun einstök fyrir svo lítið land. Það er ótrúlegt að rúmlega 300.000 manna þjóð skuli geta keppt við stór lönd eins og Rússland, Kanada og jafnvel Norðmenn um aðgang að þessum mörkuðum og staðið sig jafn vel og raun ber vitni.