140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar um að hagsmunir allra landsmanna liggi undir í þessu máli, hvort sem það er á Stór-Reykjavíkursvæðinu eða úti á landi.

Þingmaðurinn kom inn á góðan punkt í ræðu sinni, það eru hótanir samfylkingarfólks og hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur þess efnis að senda kvótamálin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú bar svo við að forseti vor taldi að vel væri hægt, verði þessi ólög að lögum, að vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu og hefði hann þá stjórnskipulegan rétt til þess og beitti til þess 26. gr. Við þetta varð hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir alveg fokvond og taldi að forsetinn væri farinn að skipta sér af þingstörfum.

Það er því mikilvægt að rifja upp orð hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þegar hún kom fram með þá vitleysu í dag að ríkisstjórnin ætti að draga þessi frumvörp til baka og senda málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og þingmaðurinn fór yfir. Svo virðist sem þekking hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur nái ekki lengra en svo að hún hafi beinlínis verið að boða til kosninga. Þingið getur nefnilega ekki farið með þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu með því að draga það til baka og boða til slíkrar atkvæðagreiðslu án þess hreinlega að boða til þingkosninga.

Ég spyr hv. þm. Jón Gunnarsson: Er það kannski komið í spilin hjá hv. ríkisstjórn að boða til kosninga? Það mætti ætla ef miðað er við ummæli áðurnefnds þingmanns sem situr í atvinnuveganefnd sem aðalfulltrúi (Forseti hringir.) og talsmaður Samfylkingarinnar.