140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar að ræða aðeins fundarstjórn forseta. Ég hélt ræðu áðan og fjallaði um fjölda umsagna sem borist hafa úr Norðvesturkjördæmi, frá Vesturbyggð, Tálknafirði, Snæfellsbæ, Bolungarvík, Stykkishólmi, Skagafirði, Grundarfjarðarbæ, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Fjórðungssambandi Vestfjarða.

Þetta var fyrsta ræðan sem ég hef haldið við þessa umræðu. Hv. þm. Mörður Árnason talaði um það, undir liðnum fundarstjórn forseta, að hér væru LÍÚ-aðilar að verki. Sveitarfélög allt í kringum landið hafa gagnrýnt mjög það frumvarp sem við ræðum hér og áhrif þess og ég furða mig á því, frú forseti, að hv. þingmaður komist upp með að halda því fram að öll þessi sveitarfélög séu handbendi LÍÚ.

Þetta er ekki boðlegur málflutningur. Ég beini því til frú forseta að hún beiti sér fyrir því að ekki sé fjallað um sveitarstjórnarmenn í þessum sveitarfélögum á þann hátt sem hér var gert.