140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:53]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég náði ekki alveg að ljúka máli mínu áðan. En hv. þm. Mörður Árnason bar það á mig áðan að ég færi með ósannindi í ræðum mínum. Ég ætla ekki að fara að þræta um það við hann af því að allt var rétt í því sem ég sagði þar. En hitt er annað mál að hann grípur gjarnan til þess að reyna að taglhnýta þá stjórnarandstöðuþingmenn sem hér tala við LÍÚ.

Ég vil bara segja það við hv. þingmann að hann þekkir þá ekki betur til sjávarútvegsmála en raun ber vitni og það kemur mér ekki á óvart. Vanþekking hans er algjör þar. Það er nefnilega þannig að gerðar hafa verið margar breytingar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu á undanförnum árum. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa staðið fyrir þeim flestum, það er alveg rétt. Flestar þeirra ef ekki allar hafa verið í þágu smábátaútgerðar í landinu, á kostnað LÍÚ.

Ef hv. þingmaður (Forseti hringir.) vill gera okkur að taglhnýtingum og hagsmunagæslumönnum ákveðinna útgerðarflokka ætti hann að kynna sér (Forseti hringir.) málið og sjá að það er helst við smábátaútgerðina í landinu. Ef frumvörpin sem hann stendur fyrir (Forseti hringir.) hér á þingi eru lesin (Gripið fram í.) kemur reyndar í ljós að þau hefðu rústað þeirri grein (Forseti hringir.) sjávarútvegs á Íslandi.