140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann í ljósi nýjustu frétta um tilkynningu frá alþjóðlegu samtökunum World Furture Council þar sem fram kemur að Ísland sé á meðal þeirra þjóða sem tilnefndar hafa verið til verðlauna sem samtökin veita á hverju ári fyrir stefnumótanir sem eru til þess fallnar að skapa meiri lífsgæði fyrir núlifandi kynslóðir og framtíðarkynslóðir. Tilnefningin er fyrir lög nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, um er að ræða núgildandi lög um stjórn fiskveiða við Ísland, en þau eru upprunalega frá árinu 1990.

Hvert er álit hv. þingmanns á þessari verðlaunatilnefningu í ljósi þess að nú er ríkisstjórnin að umbylta þeirri lagaumgjörð sem ríkir í sjávarútvegi á Íslandi? Heimskt er heimaalið barn, segir í málshætti. Hvers vegna í ósköpunum á þá að rústa því flotta kerfi sem hér er í sjávarútvegi, sem hlýtur hér alþjóðlega tilnefningu frá alþjóðlegum samtökum, en Sameinuðu þjóðirnar eru meðal þeirra sem tilnefna Ísland í þessu tilliti, (Forseti hringir.) kerfi sem fær jafnvel verðlaun, en verðlaunin verða afhent í september?