140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:23]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að taka undir þau orð að ríkisstjórnin sé eins og illa hlaðin grjótvarða sem hvorki varði leiðina né veiti skjól. Þar fannst mér vel að orði komist.

Það sem mig langar til að ræða við hv. þingmann eru ummæli hans um þau afleiddu störf sem hér eru í húfi. Við erum ekki bara að tala um þá sem fara út á sjó eða þá sem vinna í fiskvinnslum, við erum að tala um öll afleiddu störfin.

Þeir hjá Langanesbyggð og Fjarðabyggð, í kjördæmi mínu, hafa bent á öll þau fyrirtæki, netagerðarfyrirtæki, þau sem sjá um kostinn, eins og hv. þingmaður kom inn á, og í raun öll nýsköpunarfyrirtækin sem munu stórtapa á þessu frumvarpi. Mér þætti gott ef þingmaðurinn mundi koma inn á það aftur vegna þess að mér finnst það vera lykilatriði í þessu máli.