140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:25]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var annað sem vakti athygli mína, það var þessi byggðavinkill sem hv. þm. Árni Johnsen kom inn á og sú staðreynd að ekki er í raun unnið samkvæmt neinni byggðaáætlun.

Hér var síðast samin byggðaáætlun fyrir allt landið árið 1997. Síðustu ár hefur ekki verið unnið samkvæmt neinum markmiðum, ekki samkvæmt neinni stefnu hjá núverandi ríkisstjórn. Hv. þingmaður nefnir Reykjavíkurflugvöll og tek ég heils hugar undir með honum. Reykjavíkurflugvöllur er lífæð landsbyggðarinnar og gerir það að verkum að fjölmargar byggðir landsins geta þó keppt á samkeppnisgrundvelli við þau fyrirtæki sem eru á höfuðborgarsvæðinu.

Mig langar að heyra aðeins meira um þennan byggðavinkil og heyra sjónarmið þingmannsins hvað það varðar.