140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir hvert einasta orð sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði um fundarstjórn forseta. Nú er klukkan að verða eitt að nóttu til og ýmislegt gengur á í þinghúsinu. Forseti þurfti að fresta fundi í 10 mínútur til að fara yfir málin með þingflokksformönnum Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins. Við skulum ekki gleyma því hvað hv. þm. Björn Valur Gíslason sagði til dæmis um forseta Íslands og slapp út í vorið með það án þess að fá áminningu eða nokkurn hlut frá forseta en þá var að sjálfsögðu „réttur“ forseti í stólnum.

Ég vil því gera það að tillögu minni, úr því að málin eru komin á þennan stað þessa nótt, að forseti þingsins slíti fundi og fresti umræðu til morgundagsins. Ég held það veiti ekki af að kæla mannskapinn.