140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:13]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Auðvitað er þetta ekkert annað en skattur á landsbyggðarfyrirtæki. Um 90% af aflaheimildunum eru utan höfuðborgarsvæðisins og í flestum tilvikum eru þessi fyrirtæki burðarásar í sinni sveit, hvort heldur við erum að tala um Langanesbyggð, Grýtubakkahrepp, Fjarðabyggð, Akureyri eða Fjallabyggð og þannig gætum við haldið áfram.

Hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson nefndi að við kæmum báðir úr Norðausturkjördæmi. Þeir þingmenn í Norðausturkjördæmi sem bera frumvarpið fram, hv. þm. Björn Valur Gíslason, Kristján Möller og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, eru að beita sér fyrir því að fyrirtækjarekstur í sjávarútvegi í Norðausturkjördæmi verði skattlagður alveg í drep, að þeir fjármunir verði dregnir út úr þessum byggðarlögum suður í ríkissjóð og svo verði skammtað þaðan. Mér sýnist svo þeim sömu hv. þingmönnum ekki hafa gengið mjög vel að standa vörð um grunnþætti eins og heilbrigðisþjónustu í kjördæminu. Ég hef enga ástæðu til að ætla það, með fullri virðingu fyrir þessum þremur þingmönnum, að þeim muni ganga eitthvað betur að skila þessu fé aftur inn í kjördæmin. Ég segi það við hv. þingmann, með fullri virðingu fyrir getu þessara þriggja hv. þingmanna, að ég treysti þeim fyrirtækjum sem í hlut eiga, þeim einstaklingum sem um þau sýsla, mun betur til að gera meira úr þessu fyrir sitt svæði en stjórnmálamönnum.