140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:20]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Já, þingmenn Norðausturkjördæmis hafa mjög góðar upplýsingar frá fyrirtækjum í Fjarðabyggð um það hver áhrifin af þessum frumvörpum verða. Það vill svo til að fyrirtæki í Fjarðabyggð njóta þeirrar gæfu að hafa afburðastarfsfólk sem hefur fylgst mjög vel með og sett sig mjög vel inn í þær breytingar sem verið er að gera og ég fullyrði að þeir sem hafa lagt sig mest fram í þeim efnum í Fjarðabyggð hafa lagt mjög þung lóð á vogarskálarnar í þá veru að draga úr skaðsemi þeirra frumvarpa sem hér liggja fyrir. Það eru alveg hreinar línur.

Það er í sjálfu sér ekkert skrýtið í ljósi allra þeirra verðmæta sem fara þar í gegn. Um 30% af öllum útflutningstekjum Íslands fara í gegnum hafnir Fjarðabyggðar og það fólk sem þar lifir og starfar ber mjög mikið skynbragð á takt atvinnulífs og hefur mikla og góða tilfinningu fyrir því. Þetta liggur allt saman mjög vel fyrir. Þess vegna er enn sárara að horfa upp á þær tillögur sem hér liggja fyrir í þeirri mynd sem þær liggja fyrir og sjá að í sumum tilfellum er þeim tillögum, ekki bara í þessum frumvörpum heldur í þeim breytingum sem voru staðfestar síðast, beint gegn tiltekinni starfsemi sem þar á sér stað. Það er mjög miður en ég ítreka þá skoðun mína að þessi frumvörp tvö eru til stórskaða, ekki bara fyrir fyrirtækin í Fjarðabyggð heldur fyrir þjóðarbúið allt því að þau koma í veg fyrir að þau skili því sem þau gætu gert.