140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að þeir aðilar sem hv. þingmaður talaði um, heimaaðilar í Fjarðabyggð, gera sér alveg grein fyrir því hvaða stórskaða þetta frumvarp hefur en það versta, frú forseti, er að það er að sjálfsögðu ekki hlustað á þá frekar en aðra í þessari vinnu. Meira að segja Seðlabanki Íslands er búinn að heykjast á því að hrósa þessu frumvarpi og hefur gefið það út í riti um fjármálastöðugleika að þetta hafi skaðleg áhrif á greinina og við vitum að Seðlabankinn hefur verið stuðningsaðili og nokkurs konar stuðpúði fyrir þessa ríkisstjórn.

Það sem ég var þó eiginlega að meina í andsvari mínu, sem hefur kannski ekki komið nógu skýrt fram, er að hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, lagði það á sig að sækja fyrir fram greiddan skatt inn í stóriðjuna, til álveranna, upp á rúma 3 milljarða (Forseti hringir.) og þá vildi ég að þingmaðurinn bæri þetta saman. Það er heldur betur akkur að fá (Forseti hringir.) 3,7 milljarða frá Fjarðabyggð á einu bretti. Ég er að tala um bæjarfélag (Forseti hringir.) á móti stóriðjunni allri.