140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

mótmæli útgerðarinnar gegn breytingum á stjórn fiskveiða.

[10:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eins og við þekkjum öll eru frumvörpin um breytingar á stjórn fiskveiða og veiðigjöld tilraun til að setja niður mjög langvinn deilumál í samfélagi okkar og þau eru málamiðlanir sem reyndar eru gagnrýndar úr báðum áttum. Jafnframt hefur þingið verið að vinna með lagfæringar og breytingar á þessum frumvörpum og er þeirri vinnu ekki lokið.

Varðandi þær aðgerðir sem hv. þingmaður nefndi og eru nú í gangi eru þessi mál nú í höndum Alþingis og er það þingsins fyrst og fremst að meta og vanda sig í þeim efnum hvernig það vinnur sem mest ótruflað við aðstæður sem þessar og þrátt fyrir aðstæður sem þessar. Niðurstöður í löggjafarstörfum eiga ekki að ráðast af þrýstingsaðgerðum fjársterkra sérhagsmunahópa.

Ég segi fyrir mig persónulega, ég hef sagt það áður opinberlega og get endurtekið það hér, ég mun reyna að vanda mig við að láta stórútgerðarmenn ekki gjalda þessara aðgerða þótt mér þyki þær ekki viðeigandi en ég mun sannarlega ekki láta þá njóta þeirra heldur. Alþingi á að halda áfram vinnu sinni og reyna að komast að vandaðri og faglegri niðurstöðu í þessum málum eins og öðrum og því er ekkert að vanbúnaði að halda áfram störfum.

Varðandi forsetakosningarnar eiga þær auðvitað ekki að blandast inn í flokkastjórnmál að mínu mati. Þar af leiðandi tek ég ekki undir að það sé árekstur milli þess að Alþingi sé við störf í júnímánuði þegar þjóðin er sennilega að hugsa um ýmislegt annað en karpið hér inni í þingsalnum. Ég er ekki viss um að það trufli gangverk þjóðlífsins mjög mikið. Þótt þingmenn gerist mjög uppteknir af því og haldi að hér sé nafli alheimsins gæti ég trúað að þjóðin fari fljótlega að hafa meiri áhuga á EM í knattspyrnu. Okkur er ekkert að vanbúnaði að vinna störf okkar enn um sinn. Það er að sjálfsögðu eðlilegt og æskilegt að hægt sé að gera nokkurt hlé fyrir forsetakosningarnar og þingið getur þá komið aftur saman ef það hefur ekki náð að ljúka störfum með farsælum (Forseti hringir.) og sómasamlegum hætti.