140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

mótmæli útgerðarinnar gegn breytingum á stjórn fiskveiða.

[10:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að blasa við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eins og það blasir við þjóðinni að tilraun hæstv. ríkisstjórnar til að leiða þessi mál til lykta og til að draga úr þessum deilum hefur greinilega ekki tekist og þess vegna erum við í þessari stöðu. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að auðvitað er okkur ekkert að vanbúnaði að halda áfram vinnu okkar og höfum við í stjórnarandstöðunni ekkert dregið af okkur í þeim efnum. Við höfum verið tilbúin að mæta hér til fundar hvern dag, á kvöldin og næturnar líka og tekið þátt í umræðum, sem er auðvitað nauðsynlegt að gera.

Staða málanna blasir hins vegar við, þessi mál eru komin í mikinn hnút. Þau eiga mjög langt í land og ég spurði hæstv. ráðherra einfaldlega um hvernig hann sæi fyrir sér framhaldið. Hæstv. ráðherra sagði að málið væri núna í höndum Alþingis. Það er út af fyrir sig alveg rétt en við skulum heldur ekki tala eins og börn. Þetta er ekki mál sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun núna láta fram hjá sér fara af því að málið er komið inn í þing. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur auðvitað frumkvæðisskyldu í þessum efnum og mun auðvitað ráða mjög miklu um lyktir málsins.

Ég tek eftir því að hæstv. ráðherra er kominn í þennan gír (Forseti hringir.) sem menn hafa verið í undanfarna daga að reyna að gera það tortryggilegt að sjómenn, útvegsmenn og fjöldi fólks í fiskvinnslu og margir aðrir hafa verið að mótmæla þessum frumvörpum og það dugar (Forseti hringir.) auðvitað ekki fyrir hæstv. ráðherra að skella skuldinni á það sem hann kallar stórútgerðarmenn. Hér er um að ræða breiða samstöðu fjölda fólks (Forseti hringir.) alls staðar að af landinu í andstöðu við þessi frumvörp.