140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

mótmæli útgerðarinnar gegn breytingum á stjórn fiskveiða.

[10:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það hefur alltaf legið fyrir að það sé erfitt að reyna að ná einhverjum betri friði um þessi mál og það þekkir hv. þm. Einar K. Guðfinnsson mætavel eins og fleiri í salnum þar sem hann er meðal annarra forveri minn í því starfi sem ég gegni nú. Það hefur alltaf legið fyrir að það er ekki auðvelt verk að reyna að leiða þetta einhvern veginn til lykta en áfram verðum við að reyna að halda og við eigum ekki að gefast upp því að það er gríðarlega mikið í húfi að við reynum að koma inn til lendingar í þessu máli. Þessi ófriður og deilur eru ekki neinum til framdráttar og ég get fullvissað hv. þingmann um, sem ég reyndar þykist vita að hann viti, að þrátt fyrir hörkuna sem samtök stórútgerðar í landinu sýna í þessu máli eru fjölmargir félagsmanna þeirra mjög áhugasamir um að við reynum að finna lausn á þessu. Það er veruleikinn og það er mikill áhugi á því víða og líka í sjávarbyggðunum. Ég sagði ekki eitt orð um aðkomu sjómanna eða starfsfólks að þessum aðgerðum en þær eru aðgerðir Landssambands íslenskra útgerðarmanna. Þeir standa fyrir þeim (Forseti hringir.) og sjómannasamtökin hafa tekið skýrt fram að þau eiga enga aðild að þeim.