140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

tekjur af virðisaukaskatti.

[10:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Virðisaukaskattur skiptist í tvennt hér á landi, annars vegar sá sem er nefndur í ríkisreikningi, þ.e. virðisaukaskattur af innlendum vörum og þjónustu, og innheimtur er hjá ríkisskattstjóra og hins vegar virðisaukaskattur sem innheimtur er hjá tollstjóra og færður er sérstaklega í bókhaldi ríkisins í gegnum hann, en undir hann heyrir til dæmis allur innflutningur til landsins hvort sem um er að ræða neysluvörur eða aðföng til rekstrar og fjárfestingar.

Mér hefur borist svar við fyrirspurn sem ég sendi til fjármálaráðuneytisins. Í svarinu kemur fram að á árinu 2009 hafi þessi innlendi hluti virðisaukaskattsins verið 33 milljarðar, árið 2010 lækkaði hann mjög og fór niður í 20 milljarða og á árinu 2011 var þessi hluti virðisaukaskattsins kominn niður í mínus 9 milljarða samkvæmt bráðabirgðauppgjöri. Því hefur þessi innlendi hluti virðisaukaskattsins rýrnað um 40 milljarða á tveimur árum, um 40 þús. millj. kr., frú forseti. Það gerist á vakt hæstv. núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, en eins og menn muna fór hann fram með breytingar á virðisaukaskattskerfinu.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra um hver skýring hans er á því að ríkistekjur hafa dregist saman um 40 milljarða af þessum innlenda hluta virðisaukaskattsins á árunum 2009–2011.