140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

skattstofn veiðileyfagjalds.

[10:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Undanfarna daga og nætur höfum við rætt tvö mál, annars vegar stjórn fiskveiða sem er enn þá í nefnd, því miður, og hins vegar veiðiskatt sem er sennilega ein stærsta einstaka skattaaðgerð, alla vega sem ég man eftir. Hæstv. fjármálaráðherra Oddný Harðardóttir, yfirmaður skattamála og hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, yfirmaður sveitarfélaga sem kvartar mikið, og hæstv. umhverfisráðherra, sem á að sjá um auðlindirnar, hafa ekki séð ástæðu til að blanda sér í umræðuna, þau hafa aldrei tekið til máls um þessi mál. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hver hún telur að verði áhrif veiðiskattsins á skattstofninn, þ.e. annars vegar þorskígildiskíló og hins vegar á samanlagða rentu allra fyrirtækja í greininni, hvort þessi skattstofn sé teyginn eða kvikur að mati ráðherra.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún telji að flatur skattur, almennur veiðiskattur, 9,50 kr. á þorskígildiskíló, sem er óháður afkomu fyrirtækja, virki þegar illa árar. Ég bendi á í því sambandi að árið 1991 sagði hæstv. núverandi forsætisráðherra, þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, að aðstöðugjaldið, sem þá var 1%, væri óheppilegt þar sem það væri lagt á rekstrarkostnað fyrirtækja og tæki ekkert mið af afkomu þeirra.

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig tæmandi skattur, 70%, virkar á rekstur fyrirtækja sem eru með mjög sveiflukennda afkomu. Hvað gerist þegar sveiflan er niður á við?