140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

skattstofn veiðileyfagjalds.

[10:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna en svörin við öllum þessu spurningum koma ágætlega fram í skýringum með frumvarpinu. Varðandi skattinn eða veiðileyfagjaldið er það rétt að skattstofninn er kvikur. Þetta er sveiflukenndur skattstofn og gjöldin eru há þegar gengi krónunnar er lágt, verslunin er mikil út úr landinu, útflutningur er mikill en síðan eru veiðigjöldin lág þegar krónan er sterk o.s.frv. Ef ég man rétt er teiknuð ágæt mynd af þessu með skýringum í frumvarpinu. Þegar krónan er sterk skilar veiðigjaldið minna í ríkiskassann en á móti kemur að staða ríkissjóðs er yfirleitt betri þegar krónan styrkist. Þannig má líta á að veiðileyfagjaldið sé sveiflujafnandi fyrir ríkissjóð og stilli einnig rekstri útgerðarfyrirtækjanna þannig að þar séu líka minni sveiflur þannig að við gætum sagt að það sé eðlilegri grunnur.

Hér er um að ræða gjald á umframarð sem útgerðarmenn fá vegna sérleyfis sem þeir hafa til að veiða fiskinn í sjónum. Talað er um að hluti af honum gangi í ríkissjóð. Það er sem sagt rétt að skattstofninn er kvikur en hann hefur einnig sveiflujafnandi áhrif.