140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

skattstofn veiðileyfagjalds.

[10:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er um að ræða tvenns konar skatt og umræðan leiddi einmitt í ljós að þetta væri ekki gjald. Flestar umsagnir benda til þess að þetta sé skattur. Það er ekki verið að borga fyrir einhverja þjónustu sem ríkið veitir.

Fyrra gjaldið, almenni veiðiskatturinn, 9,50 kr. á hvert kíló, er algerlega óháð afkomu fyrirtækjanna. Þegar illa gengur í atvinnugreininni hefur sá skattur mikil áhrif því að hann er mjög fastur og fiskurinn er veiddur þangað til fyrirtæki fara á hausinn. Þá verður enginn fiskur veiddur af því að það borgar sig ekki. Þá er spurning hvað menn gera með þetta gjald.

Hitt gjaldið er sveiflukennt en ekki gagnvart skattstofninum því að einstakt fyrirtæki hefur ekki áhrif þar, þetta er samtala af öllum fyrirtækjum þannig að skattstofninn er ekki kvikur gagnvart einstökum fyrirtækjum. En þá gerist það sama þar að þegar illa árar, (Forseti hringir.) fara fyrirtækin á hausinn og þá hverfur skattstofninn allt í einu.