140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

þjónusta við börn með geðræn vandamál.

[10:52]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil fá að fylgja eftir svari velferðarráðherra á þskj. 1066 við fyrirspurn um viðbrögð stjórnvalda við úttekt barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Ein spurningin hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Mun ráðherra beita sér fyrir því að gerð verði heildstæð úttekt á skipulagi þjónustu við börn sem eiga við geðræn og þroskavandamál að stríða í þeim tilgangi að bæta aðgengi, greiningu, samfellu og samstarf allra þeirra aðila sem koma að meðferð og stuðningi við börn með geðraskanir og foreldra þeirra?“

Ég var mjög ánægð með svar hæstv. ráðherra en þar er tekið undir ábendingar sérfræðinga frá Þroska- og hegðunarstöð heilsugæslunnar, BUGL og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem benda á nauðsyn þess að endurskipuleggja heildstætt þjónustu og meðferð með börn með geðraskanir og þroskavanda. Í því sambandi vil ég spyrja hvort ráðherra hafi stofnað þann starfshóp sérfræðinga sem vinna á að tillögum að heildstæðri stefnu og samfelldari þjónustu við börn með geðrænan vanda og alvarlegan þroskavanda og þá hvort farið sé að vinna að þeirri stefnu, samstarfi og sátt um útfærslu á þessari stefnu.

Í gærkvöldi var viðtal við móður alvarlega veikrar stúlku sem á við margvíslegan geðrænan og þroskavanda að etja, stúlku sem þarf á mikilli meðferð og langtímavistun að halda sem ekki er til í dag. Ég vil spyrja: Það eru alltaf nokkrir einstaklingar, börn og unglingar, sem þurfa á vistun að halda umfram það sem við getum boðið upp á í dag. Er eitthvað slíkt í undirbúningi, hæstv. forseti?