140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

þjónusta við börn með geðræn vandamál.

[10:55]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og fram kemur í fyrirspurninni bar hv. þingmaður fram skriflega fyrirspurn í þinginu þar sem meðal annars var spurt um þau atriði sem hér komu fram og eins og hv. þingmaður kom að í lokin birtast oft dapurlegir hliðar þar sem eru gloppur og brestir í kerfinu þrátt fyrir að við höfum almennt afar gott heilbrigðiskerfi og góða þjónustu. Við fengum að sjá eina slíka í gær í fréttunum þar sem fjallað var um unga stúlku sem kerfið hefur ekki fundið viðunandi úrræði fyrir.

Varðandi það hvort hópur sá sem talað var um í svarinu hefur verið stofnaður fól ég í framhaldi af þessari fyrirspurn skrifstofu velferðarmála að undirbúa þetta verkefni og kalla saman helstu sérfræðinga á þessu sviði. Eins og þarna kom fram koma Þroska- og hegðunarstöð heilsugæslunnar, BUGL og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og fleiri aðilar að því verkefni og mun hópurinn vinna að heildstæðri stefnu í þessum málaflokki. Hópurinn hefur ekki verið kallaður saman en það mun gerast á næstu dögum þannig að hv. þingmaður fær tækifæri til að fylgjast með því í framhaldinu.

Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að við reynum að ná utan um þessi vandamál þegar þau koma upp, kalla saman þá aðila sem gerst þekkja þær stofnanir sem vinna að þessum málum og reyna að samhæfa þjónustuna og tryggja að við getum náð utan um vandamálin sama hvers eðlis þau eru.