140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

rekstur líknardeildar Landspítalans.

[11:01]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, fyrir spurninguna og líst ágætlega á aðdragandann að þessum breytingum þar sem fyrir lá að Landspítalinn mundi loka líknardeildinni á Landakoti og byggja síðan upp í Kópavogi. Hins vegar hef ég ekki heyrt af því sem hv. þingmaður vekur athygli á hér og hef enga ástæðu til að rengja það að ekki hafi tekist að opna deildina, þ.e. þá aukningu sem þar var.

Það lá fyrir frá forstjóra Landspítalans þegar hann tók þá ákvörðun að færa líknardeildina frá Landakoti í Kópavog að hann hefði á bak við sig félagasamtök sem á sínum tíma byggðu upp líknardeildina í Kópavogi og þau mundu fylgja því eftir og byggja frekar í Kópavogi og þá mundi þjónustan batna frá því sem hún var í Landakoti, þó að mannskapurinn skipti auðvitað mestu máli sem var afbragðsgóður á Landakoti, en það að ekki hafi tekist að taka þetta í notkun vegna fjárframlaga hefur ekki komið á mitt borð. Ég skal kynna mér það.

Hins vegar hef ég sagt að stofnun sem hefur yfir 50 milljarða kr. til að vinna með innan ársins ber að forgangsraða í meginatriðum sjálf. Ég tel óeðlilegt að ráðherra á hverjum tíma sé að hlutast til um einstaka starfsemi umfram það sem kemur fram í fjárlögum en hlutverkið er auðvitað að fylgjast með hvað sé að gerast og fá þá upplýsingar um hvers vegna sá forgangur sé valinn ef rétt er sem hér kemur fram.

Ég vissi ekki betur en þegar þessari deild yrði lokið ætti að taka hana í notkun af fullum krafti og þar með vera með nær sama fjölda líknardeildaplássa og voru áður á þessum tveimur stöðum, að vísu örlítið færri en það var svo sem vitað að menn mundu verða að taka einhverjar sveiflur yfir sumarið, en ég hef ekki heyrt að vegna fjárskorts hefði verið hætt við að taka þessa viðbót í notkun.