140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

rekstur líknardeildar Landspítalans.

[11:04]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á málinu. Það er rétt að eftirlitsskyldan er hjá ráðuneytinu en ekki hvað síst þó hjá embætti landlæknis sem á að fylgjast með því að þjónusta sé veitt samkvæmt lögum og þeim kröfulýsingum sem gerðar eru á hverjum tíma.

Ég mun að sjálfsögðu afla mér upplýsinga hver staðan er, hvers eðlis það er ef deildin hefur ekki verið opnuð, hvort þar er um að ræða að ekki hafi verið þörf fyrir hana eða hvort ástæðan er fjárskortur eða eitthvað annað. Það er ljóst að Landspítalinn er rekinn við mjög þröngan kost, við skulum ekki gera lítið úr því. Þar hafa verið unnin nánast kraftaverk við að endurskipuleggja starfsemina. Það er auðvitað okkar hlutverk að standa á bak við spítalann þannig að við getum áfram veitt góða heilbrigðisþjónustu sem okkur hefur sem betur fer tekist þrátt fyrir að við höfum orðið að fara í gegnum harða aðlögun eftir erfiðleikana og 20% tap af tekjum ríkisins sem við máttum sæta eftir hrunið.