140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum enn veiðigjöldin, eða veiðiskattana eins og ég vil kalla gjöldin, og það í skjóli þess að ekki hefur verið lagt fram nefndarálit frá hv. atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða sem mér finnst eiginlega vera meira og alvarlegra mál og er undirstaðan undir það mál sem við ræðum því að það frumvarp gæti tekið burt arðsemina úr kerfinu sem einmitt er verið að skattleggja í því frumvarpi sem við ræðum nú.

Þau frumvörp sem við ræðum ætlaði hæstv. sjávarútvegsráðherra að koma með eftir þrjár vikur — innan þriggja vikna, sagði hann um áramótin. Það leið dálítið lengri tími og mér sýnist á því að lesa þessi frumvörp að það hefði mátt líða enn meiri tími til að þau yrðu almennilega unnin og þá í sátt við alla aðila.

Það er dálítið undarleg staða, frú forseti, að þegar maður ræðir um stjórn fiskveiða eða auðlindarentuna þá vísa eiginlega allir í 1. mgr. 1. gr. í lögum um stjórn fiskveiða frá 10. ágúst sem eru óbreytt. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“

Um þetta snýst öll deilan og það er miður að ekki skuli vera hægt að finna einhverja lausn á þessu þannig að hægt sé að sætta sjónarmið þeirra sem segja að þjóðin eigi að fá arðinn af auðlindinni beint, og þá undirstrika ég „beint“, og hinna sem segja að útgerðin hafi rétt til að veiða, hafi atvinnuréttindi, og ekki megi taka þann atvinnurétt af henni því að mikilvægt sé að hún hafi hann og sameignin felist í því að ríkið fyrir hönd þjóðarinnar geti sett um þetta reglur.

Það merkilega er að báðir aðilar virðast skilgreina ríkið sem þjóð. Ég held að meinið liggi einmitt þar því að ríki er ekki sama og þjóð. Hverjir fara með stjórn ríkisins, frú forseti? Ríkið er lögaðili og hverjir fara þá með stjórn þess? Það eru fyrst og fremst ráðherrar í skjóli Alþingis þannig að það eru stjórnmálamenn sem stjórna ríkinu. Þess vegna getur íslenska ríkið aldrei, í mínum huga, verið það sama og íslenska þjóðin. Íslenska þjóðin eru Jón og Gunna og sjómenn sem ætla að mótmæla hér á eftir, vonandi friðsamlega, ég geri ráð fyrir því. Þjóðin er fólkið sem vinnur í frystihúsunum, fólkið sem vinnur á skrifstofum í Reykjavík, venjulegt fólk sem borgar skatta og skyldur.

Nokkuð margir horfa til þessa ákvæðis, að þetta sé sameign íslensku þjóðarinnar, og hver og einn hugsar með sér: Þetta er mín sameign. Hvernig fæ ég mitt úr henni?

Þeir sem starfa og vinna úti á landi átta sig á, af því að útgerðin er að meginhluta úti á landi, að hún er burðarásinn í atvinnulífinu þar og mikilvægt er að vel gangi. Þess vegna held ég að þetta sé landsbyggðarskipt, þ.e. stuðningurinn við óbreytt ástand og svo andstaðan við óbreytt ástand og krafan um að taka einhvers konar arðsemi inn í dæmið.

Nú er spurningin: Hvernig er hægt að leysa þetta, frú forseti? Hvernig getum við sætt fylkingar sem eru svo stríðandi og heiftin svo mikil úti í þjóðfélaginu og eins í þinginu að það er hægt að fara að tala um hatur á milli manna? Nú ættu þetta í rauninni að vera sameiginlegir hagsmunir vegna þess að meginmálið er að þessi starfsemi sé arðbær. Einu sinni var hún ekki arðbær og þá var enginn arður af auðlindinni, þá var þetta engin auðlind. Það er ekki fyrr en útgerðin verður arðbær sem þetta verður auðlind og það verður að vandamáli hvernig við skiptum auðlindinni.

Ég hef lagt fram frumvarp sem ég varpaði inn í umræðuna sem eins konar málamiðlun. Ég er ekkert yfir mig hrifinn af þeirri lausn en ég held að hún ætti að geta sætt alla aðila. Ég vildi gjarnan að menn ræddu það. Í staðinn fyrir að keyra hver yfir annan eins og virðist vera tískan ættu menn að ræða fleiri lausnir. Ef einhver kemur með enn betri lausn verð ég mjög glaður. Mín lausn gengur út á að 1/40 af kvótanum, aflahlutdeild við Íslandsstrendur, verði dreift á alla íbúa landsins og þá skilgreini ég sem fólk sem hefur búið hér í fimm ár og verið skattskylt í fimm ár, ekki bara borgað skatta heldur verið skattskylt, þ.e. tekið þátt í þjóðfélaginu í fimm ár sem og börnin þeirra, þannig að börn fái líka kvóta. Hver mætti fá um 21 kíló af þorskígildi og það mætti veiða kvótann í 40 ár. Eftir 40 ár yrði kvótanum úthlutað aftur þannig að þetta væri ævarandi kerfi sem alltaf væri úthlutað úr aftur og aftur.

Núverandi kvótaþegar, þ.e. útgerðarmenn, sjómenn og aðrir sem eru að fara að mótmæla hér úti á eftir, fengju sína hlutdeild, sem þeir eiga í dag, til 40 ára. Þá kynni einhver að segja: Bíddu, þú ætlar að taka af þeim auðlindina i 40 ár; þeir hljóta að tapa. Það er ekki rétt, frú forseti, vegna þess að með rekstri fyrirtækis er alltaf áhætta. Áhættan endurspeglast í hærri ávöxtun, hærri arðsemiskröfu á áhættufé o.s.frv. þannig að það sem ég vil gera fyrir útgerðarmenn í staðinn er að hafa aflahlutdeildina algjörlega frjálsa, ekki bundna við skip eða neitt. Við skulum segja að einhver maður eigi bara ákveðna hlutdeild í afla ársins 2018. Við hana má hann gera það sem hann vill; hann má leigja hana, selja eða hvað sem hann vill. Markaður með aflahlutdeildir yrði algjörlega frjáls, nema ég geri það að skilyrði að Íslendingar eigi aflahlutdeildina, ekki útlendingar, en það má líka ræða það þegar þetta verður til 40 ára. Útgerðin fær að hafa heimildir sínar til 40 ára og ég held að þegar búið er að gefa framsalið gjörsamlega frjálst, þegar búið er að negla niður eignina sem verðbréf sé það töluvert meira virði í hendi útgerðarmanna en 2.500 kr. sem mér skilst að sé markaðsverðið fyrir þorskígildiskíló í dag. Þarna gæti enginn sagt annað en að þjóðin fengi kvótann því að hún fengi jú 1/40 á ári, hver einasti íbúi, og ég held að það sé varla nokkur sem kemst nær því að vera þjóð en íbúarnir.

Þetta er algjörlega laust frá stjórnvöldum, stjórnvöld hafa ekkert um þetta að segja. Hver einasta fjölskylda, 120 þús. fjölskyldur, selur aflahlutdeild sína á markaði. Væntanlega mundu myndast einhverjir sjóðir með þetta sem söfnuðu þessum heimildum saman, menn gætu lagt sína heimild inn í sjóðinn sem eign eða selt eignina og keypt sér eitthvað annað í staðinn. Þetta eru um það bil 50 þús. kr. á ári á hvern einstakling.

Það verður engin röskun í sveitarfélögunum. Menn mundu segja að þau misstu spón úr aski sínum en ég er ekki sammála því. Af hverju skyldi útgerðin vera rekin úti á landi en ekki í Reykjavík? Er eitthvað í lögum núna sem þvingar menn til að veiða frá og gera út frá Norðfirði eða frá Vestfjörðum? Nei. Það er vegna þess að það er arðbærast að veiða þar. Svona kerfi með algjöru markaðsfrelsi mundi gera það að verkum að sá gæti borgað mest fyrir kvótann og aflahlutdeildina sem veiddi ódýrast og sem næst miðunum og seldi dýrast, þ.e. hefði góðar samgöngur og markaðskerfi. Það held ég að sé markaðskerfi sem við ættum að sækjast eftir. Þá þyrfti enginn að ákveða hvert verðið væri fyrir kvótann því að það væri markaðurinn sem gæfi það og útgerðin mundi keppast um að bjóða í kvótann, og eftir því sem útgerðin gengi betur þeim mun meira fengju heimilin í landinu fyrir sinn árlega kvóta sem yrði úthlutað.

Nú sé ég að tími minn er liðinn þannig að ég get ekki rætt þessa sáttatillögu mikið lengur, en ég vildi gjarnan að menn færu að huga meira að því hvaða lausnir eru til sem sætta alla aðila, ekki bara einn.