140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili áhyggjum af því sem fram kemur í frumvarpinu með þeim sem hafa tjáð sig um það. Ég fór yfir muninn á sköttum og gjöldum í ræðu minni í gærkvöldi. Ég fór einnig yfir það í andsvari við hv. þm. Pétur Blöndal áðan að um gríðarlegt valdaframsal er að ræða eða réttara skattaframsal. Það virðist ekki nægja að framselja þetta vald til ráðherra, eins og stundum er gert í lögum með reglugerðarheimild, heldur segir í 4. gr. að ráðherra ætli sér að skipa þrjá menn sem ákvarða eiga gjaldtöku. Það er klárt brot á stjórnarskrá því að í 77. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að skattamálum skuli skipa með lögum. Ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Það er rökstutt í 77. gr. þannig að það er skýrt bann við því valdaframsali sem er í frumvarpinu, sér í lagi vegna þess að það á að nota eftir því hvernig vindar blása á hverju ári og eftir því að hverju nefndin kemst. Auðvitað er það ráðherra sem ber ábyrgð á nefndinni en valdaframsalið er gífurlega mikið hvað þetta varðar og sérstaklega þar sem um jafnviðkvæman málaflokk er að ræða og skattamál.

Varðandi afturvirkni laganna er hún líka skýrt brot á stjórnarskránni því að lög mega ekki undir neinum kringumstæðum vera afturvirk. Ef frumvarpið fer óbreytt í gegn eins og ríkisstjórnin leggur til þýðir það bara málarekstur næstu árin, kannski næstu áratugina, þar sem menn láta reyna á þennan rétt sinn.