140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að við erum stolt af því fólki sem sækir sjóinn og stendur að markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum á erlendum mörkuðum. Það sinnir störfum sínum af stakri prýði og skilar mikilli arðsemi til íslensks samfélags. Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að eitt af mikilvægustu verkefnum okkar er að rétta hallann á ríkissjóði svo við höldum ekki áfram að safna skuldum sem lenda á börnum okkar og hlaða óbærilegum vaxtabyrðum á komandi kynslóðir

Ég varð því nokkuð undrandi þegar hv. þingmaður talaði um að skattleggja þessa grein í drep. Er hv. þingmaður ekki stoltari en svo af þessari grein að hún telji veiðileyfagjald upp á 9,50 kr. á þorskígildiskíló vera of mikið fyrir greinina, að hún geti ekki til viðbótar skilað rúmlega 20 kr. á kílóið eða svo þegar gengið er með hætti sem það er í dag og verð á afurðum, olíuverð og framlegðin er jafngríðarleg í greininni og raun ber vitni? Telur hv. þingmaður að einhver útgerðaraðili muni afþakka að sækja sjó upp á það að skila um það bil 30 kr. á kílóið í ríkissjóð við núverandi aðstæður? Telur hv. þingmaður að skortur sé á nýjum aðilum til að hasla sér völl og fjárfesta ef þeir fá að sækja þennan sama fisk upp á þau býtti að borga um það bil 30 kr. á kílóið? Er hv. þingmaður ekki stoltari en svo af íslenskum sjávarútvegi að hún telji að hann sé ekki í færum til að borga um það bil einn tíunda af því sem menn hafa verið að borga fyrir leigu á þessum sömu heimildum á markaði? Hvað á hv. þingmaður eiginlega við? Telur hún að þetta sé grein sem geti staðið undir einhverju og skilað einhverju í sameiginlega sjóði eða ekki?