140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður skautar algjörlega fram hjá aðalatriðunum í andsvari sínu. Hann svarar spurningu minni varðandi stjórnarskrána á þann veg að það þurfi að skoða þetta. Hvenær á að skoða þetta? Þegar búið er að lögfesta frumvarp sem gengur samkvæmt fjölmörgum athugasemdum gegn fjórum ákvæðum stjórnarskrárinnar? Eru það eðlileg vinnubrögð af hálfu Alþingis? Ég fagna því að sjálfsögðu að hv. þingmaður telji rétt að skoða það, en hvenær á að gera það?

Varðandi upphæð skattsins eða fjárhæðina sem innheimtist þá hentar það hv. þingmanni að tala um ákveðna krónutölu en ekki um heildina. Það er vegna þess að sagt er að hér sé um að ræða 15 milljarða kr. en ekki hafa verið lögð fram nein gögn eða útreikningar sem styðja það. Þá hefur ekki verið reiknað út hver ívilnunin af bráðabirgðaákvæði II getur orðið, alla vega liggja ekki nein gögn fyrir um það að mínu viti. Engin úttekt hefur farið fram á því hvort það nægir til að afstýra þeim ömurlegu afleiðingum sem nefndar voru í þeim umsögnum sem bárust við frumvarpið óbreytt. Hefði ekki verið eðlilegt að skoða það sérstaklega hverjar afleiðingarnar af þessu bráðabirgðaákvæði yrðu á skuldugar útgerðir?

Frumvarpið mun bitna hart á útgerðinni, sérstaklega þeim sem ekki eru með fiskvinnslu. Öllum er ljóst, þar á meðal hv. þingmanni að því er mér heyrist, að verulegar efasemdir eru um hvort frumvarpið samrýmist stjórnarskrá. Það er komin fram full sönnun á því að frumvarpið er enginn grundvöllur til álagningar skatts, það er í raun ekki hægt að nota það, það þarf að henda því út um gluggann og byrja upp á nýtt. Ef menn vilja leggja á landsbyggðarskatt í formi veiðiskatta þarf að gera það þannig að það samrýmist stjórnarskrá og á þann hátt að lagðar séu fram einhverjar tölur sem sýna okkur að ekki sé gengið of nærri greininni. Meðan það er ekki gert held ég að engin samstaða náist um málið og (Forseti hringir.) að það verði ekki afgreitt í þinginu.