140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að halda því til haga að þær umsagnir sem lesið var úr eru um frumvarpið eins og það var þegar það kom fyrst fram en það hefur tekið allnokkrum breytingum í meðförum atvinnuveganefndar, einkum sá þáttur er lýtur að veiðigjaldinu sem lækkað hefur verið mjög verulega frá því sem var þegar þessar umsagnir voru gefnar.

Það er alltaf spurningin: Hvað er sanngjarnt veiðigjald? Veiðigjaldið eins og það er núna í frumvarpinu nemur 9,50 kr. á þorskígildiskíló, sem á að renna til þess að kosta ýmsa þjónustustarfsemi við sjávarútveginn og ekki til neins annars. (Gripið fram í.) Við það bætist síðan í stórkostlega góðu árferði eins og nú er að þegar gengi krónunnar er í sögulegu lágmarki og allar aðstæður hinar hagfelldustu eigi greinin að skila liðlega 20 kr. til viðbótar inn í sameiginlega sjóði landsmanna.

Fyrst hv. þingmanni finnst það óhæfilegt er eðlilegt að kalla eftir því hvað hv. þingmanni finnst sanngjarnt að greitt sé í sameiginlega sjóði fyrir einkaréttinn fyrir afnotum af auðlindinni. Eru það þá 20 kr. á kílóið eða 10 kr. eða kannski bara 2 kr. eins og var í tíð Framsóknarflokksins? Það væri mikilvægt að fá það fram hjá hv. þingmanni. En ég harma að verið sé að reyna að etja saman landsmönnum úr ólíkum landshlutum. Ég veit ekki betur en að hér í Reykjavík séu höfuðstöðvar Brims og Granda, að hér sé Ögurvík og fjöldi annarra öflugra útgerðarfyrirtækja. Ég minni á að skattlagning á umframhagnað í sjávarútvegi er skattlagning á gróða eigendanna, ekki á starfsemina í byggðunum. Það er sá gróði sem hingað til hefur verið nýttur m.a. til þess að kaupa Toyota-umboðið í Reykjavík, til að kaupa hlutabréf í Landsbankanum, í Kaupþingi, í Glitni, til þess að kaupa verslunarfermetra í Kringlunni og Smáralind. Þessi umframhagnaður hefur að langminnstu leyti farið út í byggðirnar og það á ekki að etja saman venjulegu fólki úr ólíkum landshlutum á Íslandi því að málið snýst um að almenningur fái eðlilegt endurgjald af þeim stórgróða sem annars fer í fjárfestingar af slíku tagi.