140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá höfum við fengið það fram og mér finnst það fagnaðarefni að hv. þingmanni þyki hæfilegt að greiddar séu um 20 kr. í endurgjald fyrir hvert þorskígildiskíló á Íslandsmiðum. Um það erum við ekki sammála, við teljum í stjórnarflokkunum að menn séu í færum til að standa skil á liðlega 30 kr., sérstaklega þegar til þess er horft að þar er um að ræða 1/5 af framlegðinni í greininni. Það eru gjöld upp á 15 milljarða á grein sem leggur fram 80 milljarða kr. En í aðalatriðum eru þetta ólíkar áherslur í skattlagningu, ekki er um neinn grundvallarágreining að ræða og ekki er tilefni fyrir hv. þingmann eða flokksfélaga hans til að standa í málþófi hér dögum saman því að það er ósköp hversdagslegt að stjórnarmeirihluti kunni að vilja fara í ögn meiri skattálögur í einhverri tiltekinni atvinnugrein en stjórnarandstaðan. Hann verður bara að njóta síns lýðræðislega meiri hluta til að ráða slíkum málum til lykta. Það kann að vera meiri ágreiningur um fiskveiðistjórnarmálið, það er svo annað mál.

Ég geld enn varhuga við því að verið sé að etja saman fólki á ólíkum landsvæðum, því að við sem talað höfum fyrir auðlindagjöldum í sjávarútvegi höfum líka talað fyrir auðlindagjöldum í orkuiðnaði. Það eru sannarlega gjöld sem fyrst og fremst legðust á virkjanir hér á suðvesturhorninu og á þá miklu notkun og það háa verð sem er á orku á suðvesturhorninu í hagkvæmri dreifingu. Það mundi að miklu leyti jafna myndina og skiptingu milli landshluta. Auk þess legg ég áherslu á að sá umframhagnaður sem hér er verið skattleggja hefur því miður ekki skilað sér í byggðunum fyrst og fremst heldur í öðrum og óskyldum fjárfestingum í útlöndum og á höfuðborgarsvæðinu. Það er þess vegna mikil einföldun að tala um að það sé sérstakur landsbyggðarskattur þó að menn ætli sér að fá hluta af þeim mikla umframgróða inn í sameiginlega sjóði áður en hann rennur til fjárfestinga á höfuðborgarsvæðinu og í útlöndum.