140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:23]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á þeim mikla og góða meiri hluta sem er úti á Austurvelli að andmæla tillögum ríkisstjórnarinnar. Þegar maður horfir hér yfir, við höfum ágætt útsýni, þá er mikill meiri hluti sem ræðir og vill breytingar á þeim tillögum sem hér eru til umræðu. Það er vissulega einhver hópur sem vill skattleggja og breyta en hann er fámennur og lítið fer fyrir honum eftir því sem ég best veit.

Þetta snýst að sjálfsögðu um störf úti á landi. Það að segja að verið sé að etja saman höfuðborg og landsbyggð er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Það mundi heyrast hljóð úr horni svo sannarlega, virðulegur forseti, ef orkureikningar borgarbúa mundu hækka.

Málflutning minn má samt ekki skilja þannig að við á landsbyggðinni viljum höfuðborginni og þeim sem þar búa allt hið versta. Ég lærði það á mínu heimili að maður ætti að standa upp og verja sig þegar á manni væri brotið en maður þyrfti að passa sig á því um leið að valta ekki yfir andstæðinginn eða þann sem manni er att upp á móti. Það er það sem ég upplifi á landsbyggðinni núna, höfuðborgin býr við alla stjórnsýsluna, Alþingi er hér, stofnanir flestar, langflestar sem draga til sín ótrúlega mikið fjármagn og hér stendur til að byggja hátæknisjúkrahús í fyrsta áfanga fyrir 60 milljarða og samtals fyrir 100 milljarða. Það er ekki góður leikur, virðulegur forseti.