140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram að ræða um hugsanlega sátt á milli stríðandi fylkinga. Á Austurvelli er annars vegar hópur sem er á móti því frumvarpi sem við ræðum hér og svo hins vegar hópur sem er á móti þeim hópi sem er að mótmæla. Mér sýnist því að það sé svona lauslega séð 1/3 á móti 2/3. Það er ekki nógu gott, virðulegi forseti, að sjávarútvegsmálin séu í þeim farvegi, að menn séu meira að mótmæla en að vinna uppbyggilega að því að finna lausnir. Mér finnst að allt ferlið síðustu 20–30 árin hafi meira verið valdabarátta en að menn leiti sameiginlega að lausn.

Ég fór í gegnum það í ræðu minni áðan að allt grundvallast þetta á setningunni: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“ Í þessu eru nokkur óljós atriði. Menn vita nokkurn veginn hvað nytjastofnar eru, menn vita líka nokkurn veginn hvað Íslandsmið eru, en sameign er ekki alveg klárt hugtak. Og íslensk þjóð er heldur ekki hugtak sem mér finnst vera nægilega vel sinnt, mér finnst menn skauta of létt í gegnum það.

Sumir tala endalaust um að þeir þekki vilja þjóðarinnar, þjóðin vill þetta og þjóðin vill hitt. Mér sýnist nú ef menn fara að skoða þetta að það sé hugtakanotkun sem — ég veit ekki hvað ég á að segja — er mikið notuð hjá einræðisherrum í heiminum. Þeir vita oft gjarnan hver er skoðun þjóðar sinnar og tala fyrir hönd hennar. Ég hef ekki hugmynd um hver skoðun íslenskrar þjóðar er. Ég tala reyndar við fólk, ég heyri skoðanir á facebook, ég les blöðin og veit svona nokkurn veginn hvaða skoðanir fólk hefur en ég get ekki sagt að ég viti hver skoðun þjóðarinnar sé og held ég hafi aldrei nokkurn tíma reynt að koma með skoðun þjóðarinnar. Hún kemur náttúrlega best fram í kosningum hjá þeim hluta þjóðarinnar sem tekur þátt í kosningunum.

Við erum að ræða hérna mikla hagsmuni. Auðlindin við Ísland er óskaplega arðbær, og ég ætla að fara lauslega í gegnum nokkra þætti. Þrátt fyrir gífurlega hlekki sem eru á útgerð á Íslandi — sumir hafa sagt að til að stunda útgerð á Íslandi þurfi menn fyrst að læra lögfræði, alla vega fara í smákúrs, þó að þeir séu jafnvel að gera út trillu þurfi þeir að vita hvaða lög gilda um útgerðina fram og til baka. Svona reglur sem eru sérreglur fyrir íslenska útgerð og ekki fyrir önnur fyrirtæki í landinu hamla og virka eins og hlekkir á útgerðinni. Ég sé oft útgerðina fyrir mér eins og kraftmikinn risa í hlekkjum sem dröslast áfram og nær góðum árangri þrátt fyrir þá af því að auðlindin er arðbær. En fyrir þjóðina er þetta ekki arðbært að leggja svona hlekki á útgerðina. Þess vegna mundi ég vilja að útgerðin bæri akkúrat enga hlekki en, eins og ég gat um áðan, að fundin yrði önnur leið til að koma þessari hugsun um sameign þjóðarinnar til þjóðarinnar. Hún gengur út á það, eins og ég gat um áðan, að taka 1/40 af auðlindinni og dreifa henni á alla íbúa landsins sem hafa verið skattskyldir síðustu fimm ár sem og börnin þeirra.

Þetta mundi þýða algjöra markaðsvæðingu. Sumir eru kannski ekkert voðalega hlynntir markaðsvæðingu og tala um nýfrjálshyggju og annað slíkt, en ég held nú samt að flestir vilji að markaðurinn ákveði verð á vöru, svona flestir. Kannski má undanskilja einhverja hv. þingmenn Vinstri grænna sem eru ekki alveg hlynntir markaðskerfi og samkeppni, en ég held að flestir aðrir þingmenn í grunninn taki undir það að samkeppni ákveði verðið.

Eitt dæmi. Hér er ákveðið að hækka grunngjaldið, almennt veiðigjald úr 8 kr. í 9,50 kr. Hver í ósköpunum fann þetta út? Hver ákvarðaði þetta gjald? Hvernig var það fundið? Einhver nefnd hv. Alþingis sest niður og ákveður að það eigi að vera 9,50 kr. á hvert þorskígildiskíló sem menn eigi að greiða fyrir þá þjónustu sem felst í fiskveiðistjórn, eftirliti og öðru slíku. Þetta á að sjálfsögðu að koma fram í markaði, það er markaðurinn sem á að finna út úr því: Hvað vill útgerðin og hvað getur útgerðin greitt fyrir kvótann, fyrir heimildina? Þá kemur þetta í ljós og þarf ekki að ákvarðast ofan frá, frá Alþingi.

Sama er með hinar hugmyndirnar sem menn eru með. Það er alltaf eins og Alþingi sé að reka eitt heljarinnar hlutafélag og ákveði verð hingað og þangað. Ég tel að það sé miklu betra að markaðurinn ákveði verðið eins og reyndar er gert víðast hvar. Þegar ég kaupi brauð úti í búð er það ekki einhver ráðherra sem ákveður verðið á því brauði. Það var reyndar einu sinni reynt hér á Íslandi, það hét vísitölubrauð, og þá var allt verð ákveðið ofan frá. En menn eru löngu hættir við svoleiðis hugmyndafræði og vilja hafa markað.

Ég held að í stað þess að slást svona fram og til baka og koma með hugmyndir um að leggja eitthvað sem ég kalla sovétkerfi á útgerðina, sem verður gífurlegt helsi á hana, ættu menn að hugleiða það og skoða í alvöru að koma með eitthvert markaðskerfi sem felst í því að dreifa kvótanum á þjóðina og síðan mundi hvert heimili reyna að selja sína heimild. Útgerðarmenn gætu keypt, þeir sem veiða ódýrast og selja dýrast gætu borgað hæst verð fyrir aflahlutdeildina eða veiðihlutdeildina. Ég mundi vilja hafa framsal gjörsamlega frjálst vegna þess að það hefur sýnt sig, og flestir eru því sammála, að því frjálsara sem framsal er því arðbærari er útgerðin. Með frjálsara framsali yrði meiri samkeppni inni í greininni og því meiri samkeppni. Þeir sem eru markaðssinnaðir hafa þá trú að samkeppni lækki verð til neytenda og ákvarði réttlátt verð á allar vörur. Við ættum að stefna að þessu, frú forseti, en ekki að keyra stöðugt yfir hvert annað á annan hvorn mátann. Mér finnst frumvarpið sem við ræðum — og alveg sérstaklega frumvarpið sem ekki er hér til umræðu, þ.e. frumvarpið um fiskveiðistjórn, það er alveg skelfilegt.

Eitt lítið dæmi. Við framsal á heimildum á að borga 3% til ríkisins af heimildinni. Ef það er gert 22 sinnum, t.d. ef menn eru að skipta á þorski og ýsu og síðan á ýsu og karfa og svo aftur til þess að fá fram hagræðingu í því að ein útgerð sérhæfi sig í einni tegund, sem er mjög arðbært, það getur verið mjög sniðugt fyrir útgerð að sérhæfa sig bara í loðnu eða bara í kola eða einhverju slíku, þá eru við hvert einasta framsal tekin 3%. 22 framsöl helminga þá veiðiheimild sem viðkomandi útgerðarmenn áttu. Og jafnvel þó að framsalið færi í hring er það helmingað, 0,97 í 22. veldi er hálfur. Allt í þessum frumvörpum miðar að því að færa kvótann hægt og bítandi, mismunandi hratt til ríkisins. Og það sem er verst í því frumvarpi sem við ræðum ekki núna en er enn þá í nefnd er að eftir 20 ár eigi allt framsal að vera bannað.

Þá segja menn: 20 ár, það er nú alveg nógu langur tími. En sá tími líður, frú forseti, og eftir 15 ár eru fimm ár eftir og þá yrði allt í uppnámi í greininni, ég lofa því. Það er sívaxandi spenna að myndast þarna, sívaxandi óvissa um framhaldið. Það var nákvæmlega það sama með sáttanefndina sem kom með hugmynd sína, að hún var ekki hugsuð til frambúðar heldur eingöngu í stuttan tíma. Það átti að gerast á 15 árum og síðan á átta árum en hvað gerðist eftir þau 23 ár, það gat enginn sagt mér. Þær lausnir sem menn hafa fundið hingað til eru ekki varanlegar. Ég skora á menn að leita og skoða aðrar lausnir eins og þá sem ég hef komið með, sem óneitanlega færir kvótann til þjóðarinnar á ákveðnum tíma en eykur um leið verðmæti eigna útgerðarinnar.