140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann um þann farveg sem þessi mál, stjórn fiskveiða og veiðigjaldamálið eru komin í. Úti á Austurvelli er nú fjölmennur fundur þar sem saman eru komnir sjómenn og þeir sem tengjast útgerðinni og þar eru haldnar málefnalegar ræður, menn eru að fara yfir málin. Á sama tíma er þar annar hópur sem efnt hefur til mótmæla. Hann blæs í háværa lúðra og hlustar ekki á neina ræður. Það er greinilega mikil gjá sem hefur myndast þarna á milli. Til dæmis heyrði ég þegar ég var þarna úti áðan að þegar einn ræðumaðurinn ræddi um að veiðigjöldin væru sannarlega landsbyggðarskattur, var hrópað úr þessum háværa hópi: Niður með landsbyggðina. Ég vil biðja þingmanninn um að segja mér hvort hann sé sammála því að telja megi að taka eigi svo hátt veiðigjald úr byggðunum sem er kannski 10–12 sinnum hærra en það sem þegar hefur farið þaðan í dag.

Sú gjá sem margir hafa óttast í mörg ár að sé að myndast á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar virðist vera að dýpka vegna þeirrar öfgapólitíkur, sem ég vil kalla svo, þegar ríkisstjórnin gengur mjög harkalega fram án þess að hafa samráð við hagsmunaaðila, án þess að hafa samráð við sveitarfélögin. Þær umsagnir sem komu til atvinnuveganefndar voru allar á einn veg, hvort sem þær voru frá sveitarfélögunum, sem er hitt stjórnsýslustigið með kjörnum fulltrúum í landinu, alveg óháð flokkum — því að í þessum sveitarfélögum sitja auðvitað margir mismunandi flokkar — eða frá öðrum umsagnaraðilum. Ég vildi heyra álit þingmannsins á því hvort hann óttist ekki að þessi gjá og umræðan um landsbyggðina versus höfuðborgarsvæðið, sé að dýpka, m.a. af völdum ríkisstjórnarinnar og umræðunnar um þessi frumvörp.