140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Lengi hafa verið miklar deilur og risið úfar með mönnum sem eru fylgjandi óbreyttu ástandi og hinum sem vilja að þjóðin fái hlutdeild í kvótanum en í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga stendur að nytjastofnar séu sameign íslensku þjóðarinnar. Mér finnst sú deila heldur hafa versnað og gagnkvæm rök hafa fjarlægst hvort annað. Menn ræða ekki hver við annan heldur hver fram hjá öðrum. Mér finnst markmiðið vera að berja á andstæðingnum í staðinn fyrir að ræða við hann. Það kristallast úti á Austurvelli en það er líka inni í þingsal og endurspeglast í orðræðunni sem oft og tíðum er mjög hvöss og hörð og ekki miðuð að því að finna sameiginlegar lausnir.

Ég benti á lausn sem ég þykist hafa hugsað út. Hún þarf ekki að vera sú albesta en ég hef ekki séð neina aðra sem er jafngóð eða betri. Sú lausn sem ríkisstjórnin kemur fram með er greinilega bara til að keyra yfir. Það er ekkert hugsað um hag útgerðarinnar, það er búið til eitthvert kerfi sem ekki er bundið einhverjum markaði eða einhverju slíku. Ríkið á að vera allt um lykjandi og ég hef þá trú að það sé bara ekki gott. Slík tilraun var gerð í Sovétríkjunum í 70 ár og tókst ekki vel. Ég held því að menn þurfi og verði að skoða einhverjar nýjar lausnir. Og vissulega er það rétt sem hv. þingmaður sagði, þetta er landsbyggðarskattur vegna þess að sérhver aukning á skattheimtu er ekki til annars en að að byggja upp ríkisvaldið sem er í Reykjavík.