140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:50]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mikilvægt frumvarp, sögulegt frumvarp leyfi ég mér að segja þó að það orð sé nú stundum dálítið ofnotað, því að hér er á ferð frumvarp sem ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs leggur fram og stígur með því skref sem engin ríkisstjórn undanfarin 25 ár hefur viljað stíga, þ.e. að tryggja að þjóðin fái sanngjarna hlutdeild í arðinum af nýtingu þeirrar auðlindar sem hún á sameiginlega sem eru nytjastofnarnir á Íslandsmiðum.

Á hverju byggir ríkisstjórnin þessa aðgerð? Jú, hún byggir hana fyrst og fremst á því að framfylgja gildandi lögum. Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða sem verið hefur í gildi um áratugaskeið er kveðið berum orðum á um það að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Þetta ákvæði um sameign þjóðarinnar á fiskstofnum á Íslandsmiðum kom fyrst inn í þingið í frumvarpi sjávarútvegsráðherra sem lagt var fram í byrjun desember 1987 og varð að lögum 8. janúar 1998.

Ákvæðið um þjóðareign er efnislega óbreytt í lögunum sem sett voru 1990 en í þeirri lagasetningu var bætt við, af hálfu ríkisstjórnar Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Framsóknarflokks og Borgaraflokksins, afar mikilvægu ákvæði þar sem segir, með leyfi forseta:

„Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Í athugasemdum við frumvarp til laga um stjórn fiskveiða árið 1990 sagði, með leyfi forseta:

„Enda þótt frumvarpið byggi á því að fiskstofnarnir verði skynsamlegast nýttir með því að fela þeim sem daglega starfa að fiskveiðum víðtækt ákvörðunarvald í þessum efnum má það ekki verða til þess að með því verði talið myndast óafturkallanlegt og stjórnarskrárvarið forræði einstakra aðila yfir auðlindinni. Það verður að vera ákvörðunarefni löggjafans á hverjum tíma hvaða skipulag teljist best henta til að nýta þessa sameign þjóðarinnar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.“

Þessi sama hugsun, um þjóðareign náttúruauðlinda, kemur afar skýrt fram í frumvarpi stjórnlagaráðs sem verið hefur til umfjöllunar hér í þinginu og mun nú góðu heilli verða lagt undir álit þjóðarinnar í sérstakri ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu á hausti komanda. Þar segir í 34. gr. um náttúruauðlindir, með leyfi forseta:

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.“

Síðan kemur setning sem ég tel að svari spurningu sem ég hef heyrt ýmsa þingmenn spyrja að hér í þessari umræðu, um muninn á þjóðareign og ríkiseign:

„Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.“

Þeir flokkar sem stjórnað hafa landinu lengst allra á lýðveldistímanum og lungann af þeim tíma sem ákvæðið um þjóðareign á nytjastofnum sjávar hefur verið í gildi hafa valið að hafa inntak þessa ákvæðis um þjóðareign að engu. Annars vegar með því að koma því þannig fyrir að auðlindaarðurinn hefur nær allur setið eftir í greininni sjálfri í stað þess að renna til eigandans að verulegu leyti og í öðru lagi með því að haga stjórn fiskveiða eins og um varanlegan eignarrétt kvótahafa væri að ræða.

Um þetta snýst málið í reynd. Hver á fiskinn í sjónum? Er það útgerðin eða er það þjóðin? Lögin segja skýrt að það skuli vera þjóðin og það er erindi núverandi ríkisstjórnarflokka Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að virða þjóðareignarákvæði laga um stjórn fiskveiða með því að tryggja þjóðinni sanngjarnan hlut í auðlindaarðinum rétt eins og kapítalistar í landi hirða arð af eignum sínum, hvort sem það eru fyrirtæki, peningalegir fjármunir eða annað.

En hvernig hefur framkvæmdin verið fram að þessu? Hefur þjóðin fengið sanngjarna hlutdeild í arðinum af nýtingu sameignar sinnar, sanngjarnt veiðigjald fyrir að veita tilteknum hópi manna sérleyfi til að nýta þessa takmörkuðu og afar verðmætu auðlind? Nei, því miður hefur svo ekki verið.

Í svari sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar koma fram greinargóðar upplýsingar um það veiðigjald sem útgerðin hefur í reynd greitt á liðnum árum. Þar kemur fram að á árunum 2005–2009 greiddi útgerðin veiðigjald sem fór lækkandi með hverju árinu úr tæpum 650 milljónum fiskveiðiárið 2005–2006 niður í einungis 126 milljónir fiskveiðiárið 2008–2009.

Ef við skoðum hve hátt hlutfall þetta veiðigjald er af framlegð útgerðarinnar á þessum árum kemur í ljós að það byrjar í 1,5% árið 2006, fer síðan stiglækkandi og er komið niður í 0,7% árið 2008 og endar í því að vera 0,17% af framlegð útgerðarinnar árið 2009. Það ár var framleiðnin 67 milljarðar en útgerðin knúði veiðigjaldið niður í 126 milljónir meðan hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Auðvitað er það rétt að bakgrunnur þeirrar ákvörðunar var að bregðast við áhrifum stökkbreyttrar skuldastöðu sjávarútvegsfyrirtækja vegna gengisfalls krónunnar og bankahruns en eins og við sjáum á tölum um framlegð greinarinnar er ljóst að þar var býsna langt gengið.

Núverandi ríkisstjórn hefur hækkað veiðigjaldið verulega í áföngum. Það nam rúmum milljarði 2009–2010, eða tæpum 2% af framlegð ársins 2010, hækkaði í 3 milljarða eða 4% af áætlaðri framlegð síðasta árs og stefnir í að verða tæp 6% af framlegð yfirstandandi árs miðað við spá um 78 milljarða framlegð.

Þá erum við komin að nútímanum, þessu frumvarpi sem gerir ráð fyrir því að til viðbótar almennu veiðigjaldi upp á 4,5 milljarða komi sérstakt veiðigjald sem verði tengt afkomu greinarinnar og er áætlað að það gjald skili 15 milljörðum í sameiginlega sjóði landsmanna, eða vel innan við fimmtungi af væntri framlegð sjávarútvegsfyrirtækjanna á komandi ári.

Virðulegi forseti. Umræðan um þetta frumvarp hefur verið mjög tilfinningaþrungin og LÍÚ hefur keyrt mikla auglýsingaherferð í samfélaginu í anda þess sem við þekkjum frá sérhagsmunaöflum í Ameríku, gegn þessum frumvörpum. Þeir hafa gert því skóna að um sé að ræða aðför að sjávarútveginum, slátrun, muni leiða til gjaldþrota og gott ef ekki hruns greinarinnar eins og við þekkjum hana. Sá hræðsluáróður hefur hlykkjast um samfélagið, inn í samfélög sjómanna og landverkafólks, inn á heimili vítt og breitt um landið og skapað ugg og ólgu á mörgum heimilum enda miklir hagsmunir undir. Fyrir okkur þingmenn er mikilvægt að greina þessi sjónarmið og leggja mat á það hvort raunverulega sé um að ræða hættu á hruni einnar mikilvægustu atvinnugreinar þjóðarinnar eða hvort skýringarinnar á málflutningi LÍÚ sé að leita annars staðar.

Fyrst um getu greinarinnar til að borga umrædd veiðigjöld. Í fyrsta lagi er gagnlegt að skoða samanburð á framlegð útgerðarfyrirtækja rúman áratug aftur í tímann, frá árinu 2001. Þá kemur í ljós að meðaltalsframlegðin hefur verið um 46 milljarðar á þessu tímabili. Hvað gerist ef við leggjum 15 milljarða veiðigjald á útgerðina miðað við áætlaða framlegð þessa árs? Jú, við sjáum að útgerðin situr eftir með 63 milljarða til að borga fjármagnskostnað af skuldum sem hafa hríðlækkað eftir hrun og gera ráð fyrir afskriftum. 63 milljarðar eru rúmlega 40% yfir meðaltalsframlegð síðustu 11 ára og ef það ríður sjávarútvegsfyrirtækjunum í landinu að fullu þá ættu þau að vera löngu fallin miðað við framlegð síðustu ára, miðað við stökkbreyttar skuldir, miðað við bankahrun o.s.frv. En það eru þau hins vegar ekki, greinin stendur vel og útlitið er gott. Fyrirsjáanleg aukning aflaheimilda í lykiltegundum á komandi fiskveiðiári gefur væntingar um afbragðsframlegð, metframlegð, í greininni.

Ef við skoðum síðustu gögn sem liggja fyrir, um raunverulega afkomu sjávarútvegsins byggða á skattframtölum fyrir árið 2010, kemur í ljós að framlegð greinarinnar á því ári nam tæpum 69 milljörðum kr. Ef við drögum frá þeirri fjárhæð bókfærðar afskriftir ársins og vaxtagjöld og síðan það veiðigjald sem við ræðum hér miðað við breytingartillögur meiri hluta atvinnuveganefndar þá sitja enn eftir rúmir 33 milljarðar kr. í hagnað hjá útgerðinni í landinu. Já, en á þá ekki eftir að taka tillit til skattpíningar núverandi ríkisstjórnar? gæti einhver sagt. Skoðum það. Útgerðin borgaði á því ári 1,8 milljarða í skatt samanlagt, útgerð stærri skipa 1.436 milljónir og smábáta 340. Það er nú ekki meira en svo að vera sama krónutala og útgerðin borgaði í skatt árið 2004 en verðlag hefur síðan hækkað um 55%.

Virðulegi forseti. Niðurstaðan er einfaldlega sú að kenningin um að álagning sérstaks veiðigjalds muni ríða sjávarútveginum að fullu og keyra þessa mjólkurkú samfélagsins fram af hengifluginu stenst engan veginn. Áfram verður rekinn blómlegur sjávarútvegur í landinu eftir samþykkt þessa frumvarps. Hitt er annað mál að frumvarpið er staðfesting nýrra tíma í stefnumótun sjávarútvegsmála í landinu. Það er ekki lengur LÍÚ sem hefur húsbóndavald í sjávarútvegsráðuneytinu og útgerðarmenn munu þurfa að deila arðinum af auðlindanýtingunni með þjóðinni sem vera ber og alltaf skyldi verið hafa. Það er auðvitað bylting í ákveðnum skilningi sem LÍÚ á erfitt með að horfast í augu við og gefur okkur tilefni til að rifja upp fortíðina þegar kvótakerfinu var komið á laggirnar.

Sú saga öll staðfestir þá sorglegu fortíð þegar almannahagsmunir viku fyrir sérhagsmunum, hvernig sérhagsmunaaðilar úti í bæ sögðu stjórnvöldum fyrir verkum og teiknuðu sjálfir það umhverfi sem stjórnvöld hefðu með réttu átt að móta. Ég leyfi mér að vitna í bók af þessu tilefni, ævisögu manns sem gegndi stöðu sjávarútvegsráðherra á árunum 1980–1983, með leyfi forseta:

„Kvótakerfinu var komið á með hraði um áramótin 1983 til 1984. Það var sett á fót án þess að umtalsverð umræða færi fram á vettvangi stjórnmálanna eða í sjávarútvegsráðuneytinu. Þegar ég yfirgaf ráðuneytið grunaði mig ekki hversu skammt væri í að Kristján Ragnarsson“ — sem var framkvæmdastjóri LÍÚ á þessum tíma — „hefði sitt fram. Ég leit ekki svo á að hugmyndir um byggðakvóta væru úr sögunni. Í mínum huga var umræðan rétt að hefjast.

Jón B. Jónasson, yfirmaður fiskveiðistjórnunardeildar sjávarútvegsráðuneytisins, hefur staðfest í viðtali vegna skrásetningar þessarar bókar að innan ráðuneytisins hafi ekkert verið unnið að undirbúningi kvótakerfis í líkingu við það sem komið var á, hvorki í sjávarútvegsráðherratíð minni né raunar haustið 1983. Vinna að útfærslu kvótakerfisins hófst ekki fyrr en Halldór Ásgrímsson, eftirmaður minn í sjávarútvegsráðuneytinu, hafði fengið lög þess efnis samþykkt á Alþingi 28. desember 1983. Þar var ráðherra veitt víðtækt vald til að stjórna veiðum og ákvarða kvóta.

Hins raunverulega uppruna kvótakerfisins þarf ekki að leita langt yfir skammt. Fiskiþing gerði samþykkt um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar haustið 1983 þar sem sjónarmið Landssambands íslenskra útvegsmanna varð ofan á. Landvinnslan og þeir sem vildu að fiskvinnslan fylgdi byggðum urðu undir. Í þessari samþykkt Fiskiþings er að finna ákvæðin sem kvótakerfið byggist raunverulega á. Þar segir meðal annars að kvóti skuli skiptast á skip miðað við veiðireynslu þriggja undangenginna fiskveiðiára og til eins árs í senn. Auk þess er kveðið á um að framsal úthlutaðs aflakvóta milli skipa skuli vera leyfilegt og þessi ákvæði í samþykkt Fiskiþings hafa öll gengið eftir og orðið að lögum þótt ekki hafi þau öll náð fram að ganga í fyrstu atrennu árið 1984.

Aðdragandi þess að sett var á kvótakerfi í sjávarútvegi á Íslandi er saga sem ekki hefur enn verið skráð þótt undarlegt megi virðast. Þegar hagsmunaaðilar í útgerð höfðu komið sér saman um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi treystu stjórnmálamenn sér ekki til að ganga gegn þeirri niðurstöðu. Halldór Ásgrímsson studdi stefnu LÍÚ og féllst á rök útgerðarmanna fyrir kvóta á skip, tillögur mínar um byggða- eða löndunarsvæðiskvóta voru endanlega jarðaðar.“

Svo mörg voru þau orð Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, í ævisögu sinni.

Ég ætla ekki að fjalla meira um kvótakerfið í þessari ræðu, þetta frumvarp fjallar um veiðigjaldið sérstaklega en kvótakerfið er undir í öðru frumvarpi sem vonandi fæst rætt hér innan tíðar.

Ég vil að lokum fara nokkrum orðum um það hvaða þýðingu það getur haft fyrir samfélag okkar ef frumvarpið verður að lögum. Eins og ríkisstjórnin hefur lýst yfir er ætlunin að nota 17 milljarða kr. af veiðigjaldi næstu þriggja ára til að fjármagna fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013–2015. Þar er meðal annars gert ráð fyrir nýjum Herjólfi og framkvæmdum í Landeyjahöfn en einnig á að hraða gerð Norðfjarðar- og Dýrafjarðarganga og efla nýsköpun, skapandi greinar, atvinnuþróun og sóknaráætlanir landshluta. Við ættum öll í þinginu að geta sameinast um að tryggja þessa mikilvægu uppbyggingu innviða samfélagsins með löglega kjörnum stjórnvöldum í stað þess að berjast með kjafti og klóm gegn þeirri góðu áætlun.

Virðulegi forseti. Ég hef í ræðu minni farið yfir forsögu málsins varðandi ákvæðið um þjóðareign nytjastofna á Íslandsmiðum, mun á þjóðareign og ríkiseign, hvernig frumvarpið mun hafa áhrif á afkomu sjávarútvegsins, hvernig þeim áfanga er loksins náð eftir áratugabaráttu, ef frumvarpið verður að lögum, að þjóðin fái sanngjarnan hlut af arðinum af nýtingu þessarar sameignar þjóðarinnar og samanburðinn við þann smánarlega hlut sem sat eftir hjá ríkissjóði sem vörsluaðila þjóðarauðlindarinnar, þann smánarlega hlut sem kom í hlut ríkisins af auðlindaarðinum þar til þessi ríkisstjórn tók við völdum.

Ég tel mig hafa hrakið þær fullyrðingar að þetta frumvarp muni knésetja sjávarútveginn í landinu. Hann getur auðveldlega borgað þetta veiðigjald því að hagnaður greinarinnar eftir að veiðigjöld hafa verið greidd verður áfram mun meiri en við höfum átt að venjast í þessari grein undanfarinn áratug og það er vel.