140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt, nefndin lét sérfræðinga vinna skýrslu og skoða einmitt áhrif veiðigjaldsins. Þeir sérfræðingar sem fjölluðu alveg sérstaklega um þessa þætti og gagnrýndu þá í umsögnum sínum, standa við þá gagnrýni óbreytta eins og frumvörpin eru lögð fram í dag, þrátt fyrir þá lækkun veiðigjaldsins sem kemur fram í breytingartillögum og þær smávægilegu breytingar sem stendur til að gera á fiskveiðistjórnarfrumvarpinu. Með öðrum orðum taka þeir undir þær miklu áhyggjur stéttarfélaganna sem ég vitnaði í og er í raun tilhlýðilegt að vitna í á þessum degi þegar þúsundir félagsmanna standa úti á Austurvelli til að eiga orð við Alþingi. Sérfræðingarnir breyttu engu í niðurstöðum sínum í skýrslunni þrátt fyrir lækkunina á veiðigjaldinu.

Getur hv. þingmaður fallist á að sjónarmið þessara verkalýðsfélaga sem deila skoðunum með (Forseti hringir.) fjölmörgum sveitarfélögum hringinn í kringum landið, sem sendu sambærilegar athugasemdir, (Forseti hringir.) sýni að við séum ekki komin alla leið, það þurfi að vinna betur með málið í þeim sáttafarvegi sem við í stjórnarandstöðunni á þinginu höfum lagt til?