140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:22]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir þessa fyrirspurn, hún er afar mikilvæg. Ég vil taka það skýrt fram að ég dró fram þessar hugleiðingar eða þessa tilvitnun í ævisögu Steingríms Hermannssonar til þess að draga fram hvað það var í raun og veru sem réði þessari einstæðu stefnumótun sem skilar sér í kvótakerfinu íslenska á sínum tíma. Það er ekki vönduð stefnumótun á vettvangi stjórnvalda heldur fyrst og fremst tillögur og sjónarmið frá þessum mikilvæga hagsmunaaðila í greininni.

Ég dreg ekki dul á það að kvótakerfið sem kerfi sem takmarkar sókn í auðlindina, dregur úr ofveiði, dregur úr offjárfestingu o.s.frv., er afar mikilvægt fyrirbæri sem við þurfum að standa vörð um. En það sem ég tel að hafi farist illa í þessu verkefni, það sem hafi í raun valdið því að stöðugar deilur hafa verið um fiskveiðistjórnarkerfið eiginlega alveg síðan það var sett á laggirnar lúti að jafnræði og atvinnufrelsi í fyrsta lagi en ekki síður að því að í raun og veru hafa stjórnvöld ekki tekið neitt mark á þessu ákvæði í 1. gr. um þjóðareignina. Eðlileg hlutdeild í afrakstrinum af nýtingu þessarar auðlindar sem þó er samkvæmt lögum í sameign okkar allra hefur ekki skilað sér til þjóðarinnar. Þar var ekki rétt gefið í upphafi og við freistum þess að leiðrétta það með þessu frumvarpi.