140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:24]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar og mér heyrist að hv. þingmaður sé mér sammála um það að varanleiki í úthlutun aflaheimilda, hvort sem það er með ótímabundnum hætti eða með langtímasamningum, sé annar grundvöllurinn að hagræðingu og arðsemi í greininni og hin forsendan er sú að einhver framseljanleiki sé í kerfinu. En gott og vel, eftir þessa ræðu hv. þingmanns finnst mér skorta á svör við eftirfarandi spurningu: Hvenær telur þingmaðurinn að útgerðin sé komin með of mikinn hagnað?

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að útgerðin skili arðinum með margvíslegum hætti til þjóðarinnar. Þegar við tölum um þjóðareign erum við ekki bara að leggja grunn að því að hægt sé að setja gjald á viðkomandi aðila sem fái nýtingarheimildir, við erum líka að segja: Þessa auðlind verður að nýta með sjálfbærum hætti og til heilla fyrir þjóðina alla. Það gerum við meðal annars með því að tryggja útgerðinni hagstæð rekstrarskilyrði. Þannig borgar hún hærri skatta (Forseti hringir.) og getur staðið undir háum launum og skapað okkur mikil útflutningsverðmæti. En hvenær er útgerðin komin í umframhagnað? (Forseti hringir.) Hvenær er hún komin í svo mikinn hagnað að við þurfum að taka af henni auðlindarentu?