140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:25]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvenær er útgerðin komin með of mikinn hagnað? Mér finnst þetta ekki áhugaverð spurning. Ég tel að það sé ekki markmið þessarar vegferðar að keyra niður hagnað útgerðarinnar, þvert á móti. Við viljum öll að þessari atvinnugrein gangi vel, það hjálpar öllum á endanum að þessi atvinnugrein eins og allar aðrar í landinu skili sínu.

Ef við ætlum hins vegar að ná sátt um þessa atvinnugrein er afar mikilvægt að fólk upplifi það þannig að það sé rétt gefið, að þjóðin fái sanngjarnan hlut í afrakstrinum af nýtingu auðlindarinnar og það er kjarni málsins. Um það snýst allt þetta mál. Og það sem er afar mikilvægt að hafa í huga er að hér er ekki hefðbundin atvinnugrein undir, þetta er ekki eins og verslun og viðskipti þar sem menn setja á fót sitt fyrirtæki og hefja síðan kaup og sölu. Hér er verið að sýsla með takmarkaða auðlind sem þjóðin á sameiginlega og kvótakerfið byggir síðan á því að úthlutað er sérleyfum til þess að nýta þessa auðlind. (Forseti hringir.) Það er þess vegna sem þjóðin og sjávarútvegurinn verða að deila arðinum.