140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:37]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í þessar breytingartillögur sem gerðar voru á frumvörpunum milli umræðna. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef hafa ekki verið lagðir fram neinir útreikningar á því með hvaða hætti þetta mun enda. Fullyrt er í umsögnum um frumvarpið, eins og það var lagt fram upphaflega, að þetta muni hafa skelfilegar afleiðingar á þau fyrirtæki sem fyrir eru og meiri hluti þeirra fyrirtækja sem eru í þessum rekstri muni ekki lifa það af að taka á sig slíka skattlagningu. Engin úttekt hefur að mínu viti verið gerð á því hvaða áhrif það bráðabirgðaákvæði sem gert er ráð fyrir nú, sem varðar skuldsett fyrirtæki, ívilnun til þeirra, muni hafa.

Ég held að þegar verið er að taka svona ákvarðanir um að leggja gríðarlega mikla skatta á atvinnugrein og helstu sérfræðingar segja að slíkir skattar hafi geigvænlegar afleiðingar hefði verið nær hjá meiri hluta nefndarinnar, fyrst verið var að breyta þessari tillögu, að láta fara fram eitthvert mat á því hvaða afleiðingar breytingin mundi hafa.

Mig langar að vita, af því að hv. þingmaður er í þessari nefnd, hvort þetta hafi ekkert komið til tals eða hvort fólki í þessari ágætu nefnd finnist þessi vinnubrögð forsvaranleg. Ég hélt að við værum hér að reyna að taka upplýstar ákvarðanir sem byggja á einhverjum gögnum en ekki hentistefnuákvarðanir til að menn geti bjargað sér úr klípu sem þeir eru vissulega komnir í í þessu máli miðað við allar þær umsagnir sem fram eru komnar.