140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir að það er ákaflega mikilvægt. Og af því að hér var kallað fram í af hv. þm. Helga Hjörvar 63:0 þá er það rétt að fullkomin samstaða var um það í þinginu að menn ætluðu að breyta vinnubrögðunum. Það hefur augljóslega ekki verið gert. Það var líka samdóma álit í þeirri skýrslu, 63:0, að fordæma þau vinnubrögð sem stjórnsýslan hefði stundað á árunum fyrir hrun. Ef við höfum engu breytt stöndum við sennilega í þeim sporum að geta fordæmt stjórnsýsluna síðan þá líka.

Það hefði t.d. verið skynsamlegt að koma á laggirnar lagaskrifstofu Alþingis. Það er mál sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir lagði fram á fyrsta ári þessa kjörtímabils en meiri hlutinn hefur tafið í nefnd, geymt í nefnd allan þann tíma og neitað að taka út. Hæstv. forsætisráðherra setti síðan upp lagaskrifstofu í forsætisráðuneytinu sem var ekki tilgangur eða meining þeirra sem sátu í þingmannanefndinni að yrði gert. Þá mundu svona mál ekki koma inn án þess að þau hefðu fengið skoðun á því hvort þau brytu stjórnarskrána eður ei.

Það eru eitt eða tvö atriði sem menn telja sig hafa tekið á í breytingartillögunum, sem létta þrýstingnum af því að um stjórnarskrárbrot sé að ræða, en engu að síður er frumvarpið því marki brennt að það er ekki nægilega vel ígrundað, það er mjög flókið. Það skilja þetta mjög fáir og þurfa virkilega að leggjast yfir það til að ná niðurstöðu í það mál. Ein afleiðing af því er sú að þegar menn setja fingurinn upp í vindinn og segja: Ja, 15 milljarðar, það er ágætt, það er bara hóflegt — og gleyma til að mynda því að með þessum breytingartillögum á að létta álögunum af þeim sem eru skuldsettir. Það þýðir í raun og veru að verið sé að leggja 25 milljarða álag, hlutfall, á þá sem eru skuldlitlir. Var það meiningin? Var meiningin að láta þá sem hafa hagað sér að margra mati mjög skynsamlega, hafa fjárfest á eðlilegan hátt og eru skuldlitlir, að þeir yrðu skattlagðir í botn (Forseti hringir.) þannig að þeir gætu ekki fjárfest og byggt upp samfélagið sitt á næstu árum? (Forseti hringir.) Var það meiningin?