140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er gersamlega ósammála hv. þm. Magnúsi Norðdahl um að ég og samflokksmenn mínir séum að ala hér á einhverri óvild. Ekki vorum það við sem stóðum fyrir því að espa upp þjóðina og koma af stað öllu þessu ósætti. Ekki vorum það við sem stóðum fyrir Evrópusambandsumsókninni sem skipt hefur þjóðinni í tvær fylkingar. Ekki vorum það við sem gengum fram með þeim pólitíska ofsa sem kallað hefur fram mótmæli, til að mynda í dag þar sem koma fram svona gríðarlegar andstæður. Ég heyrði það þegar ég var úti á Austurvelli í dag að það skipti engu máli hver talaði þar, þó að þar kæmi sveitarstjóri af landsbyggðinni sem talaði um landsbyggðarvinklana hrópuðu þeir sem voru að mótmæla LÍÚ — og þeir máttu það svo sem alveg, mótmælin voru til þess: Niður með landsbyggðina. Ekki egndi sá sem hér stendur til þess eða bjó til þessar aðstæður. Það voru ríkisstjórnarflokkarnir sem hv. þingmaður tilheyrir.

Varðandi spurningarnar sem hv. þingmaður setti fram um meðaltalshagnað síðustu fimm eða tíu ára og eitthvað slíkt þá er ég ekki með það á hraðbergi. En ég get sagt hv. þingmanni að hér hefur margt af hans fólki talað um, og það er rétt, að tekjuskattur útgerðarinnar til margra ára, kannski síðustu tíu ára fyrir utan síðasta ár, hefur verið um það bil milljarður. Það er lág tala þannig að hagnaðurinn hefur verið lítill. Aftur á móti hefur tekjuskatturinn aukist snarlega. Hann var 2,7 milljarðar á árinu 2010, meðal annars vegna þess að það gekk betur og vegna þess að menn greiða nú niður skuldir sínar og eru með raunverulegan hagnað. Tekjuskatturinn á árinu 2011 verður væntanlega um 5 milljarðar og enn hærri á árinu 2012 vegna þess að menn greiða nú niður skuldir sínar.

Frumvarpið sem hér er lagt fram mun hafa þær afleiðingar að tekjuskatturinn verður lægri og fjöldi fyrirtækja fer á hausinn. Það segja sérfræðingar sem þekkja greinina miklu betur en við hv. þingmenn, bæði sá sem hér stendur, (Forseti hringir.) þó að ég sé ekki í atvinnuveganefnd, og hv. þm. Magnús Norðdahl.