140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:50]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ekki taka undir það að ríkisstjórnin sé að egna til óeiningar í samfélaginu þegar leitast er við að finna niðurstöðu í málum sem hafa um langt skeið verið deiluefni og tekist hefur verið á um í kosningum og þjóðin hefur verið nokkuð skipt í afstöðu sinni til. Þá er nauðsynlegt að reynt sé að leita svara við þeim spurningum sem fá þarf svör við, meðal annars um afkomu útgerðarinnar og stöðu hennar. Það þarf að fá niðurstöðu um hvað það þýðir fyrir Ísland að taka aðra stöðu í samfélagi þjóðanna eða halda þeirri stöðu sem hún er með. Ég held að þær aðgerðir sem miða að því að gera þetta efli ekki ófrið. Hins vegar finnst sumum þingmönnum það ágætt fyrir sinn hatt að halda því fram að svo sé. Ég er þeim mjög ósammála um slík vinnubrögð og tel að þau séu ekki til mikils sóma.

Hv. þingmaður nefndi þó að minnsta kosti hagnaðartölur fyrir árin 2010 og 2011 þó að hann hafi ekki haft tölurnar nákvæmlega á hraðbergi, en vegna þess að gerð er mjög stíf krafa í umræðunni um að hagnaður útgerðarinnar verði eftir í heimabyggð vil ég spyrja þingmanninn að því beint út, líka fyrir þessi tilteknu ár: Hve stór hluti þessa hagnaðar hefur verið fjárfestur í verkefnum í Reykjavík, þ.e. í fyrirtækjum og fasteignum í Reykjavík og nágrenni? Hve stór hluti hefur verið fjárfestur erlendis og hve stór hluti hefur verið fjárfestur í beinum verkefnum á landsbyggðinni?